Allir starfsmenn NTC halda sínum störfum

Svava Johansen, eigandi NTC, segir störf sinna starfsmanna, sem og …
Svava Johansen, eigandi NTC, segir störf sinna starfsmanna, sem og laun þeirra, tryggð. mbl.is/Eyþór

Allir fastráðnir starfsmenn NTC halda starfi sínu þrátt fyrir tjón verslana í Kringlunni. Þetta segir Svava Johansen, eigandi NTC, í samtali við mbl.is. Hún bætir við að NTC sé með rekstrarstöðvunartryggingu sem ver laun allra fastráðna starfsmanna, hvort sem þeir séu í aukavinnu eða fullu starfi.

Svava rekur sex verslanir í Kringlunni og urðu verslanir hennar fyrir hvað mesta tjóninu í brunanum 15. júní. Þá eru starfsmenn verslana NTC í Kringlunni komnir í tímabundnar stöður í öðrum verslunum NTC á meðan verið er að koma öllu í stand aftur í Kringlunni.

Samninga þurfi alltaf að standa við

„Ef það er kominn samningur, þá munum við alltaf að standa við hann,“ segir Svava og bætir við að það sé svo í þeirra reglum að þeirra tjónafyrirtæki verði að tryggja fyrirtækið og alla starfsmenn þess sem búið er að ráða inn.

Hún nefnir þó sem dæmi að ef verslanirnar geta ekki opnað fyrr en eftir sex mánuði, þá þyrfti að segja starfsmönnum upp, en þeir hefðu alltaf þriggja til sex mánaða uppsagnarfrest.

Hröð en fagleg vinna

Spurð hvort hún viti hvenær verslanirnar opni á ný í Kringlunni segist hún ekki vita að svo stöddu. Margir komi þó að endurbyggingunni og nú sé verkefnið í höndum eigenda hússins og segir Svava að þeir vinni verkið mjög faglega. Hún bætir við að endurbyggingin hafi verið sett í eins konar „hraðverkefnisform“ og sé það unnið mjög vel.

Þegar þeir ljúka störfum þá taka þau hjá NTC yfir og innrétta, en á meðan undirbúa þau sig og klára allt sem hægt er að klára, segir Svava.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert