Eldsvoði í fjölbýlishúsi á Akranesi

Eldur kom upp í íbúð í fjölbýlishúsi á Akranesi í …
Eldur kom upp í íbúð í fjölbýlishúsi á Akranesi í morgun. mbl.is/Eyþór

Eldur kom upp í íbúð á jarðhæð í þriggja hæða fjölbýlishúsi á Akranesi í morgun. Íbúðin var mannlaus en rýma þurfti fjölbýlishúsið vegna reyks.

„Við erum enn á vettvangi en vinnu fer senn að ljúka. Við fengum tilkynningu rétt fyrir klukkan 10 í morgun um eld í einni íbúð á neðstu hæð. Íbúðin var mannlaus og það gekk vel að ráða niðurlögum eldsins,“ segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliðinu á Akranesi og Hvalfjarðarsveit, við mbl.is.

Hann segir að íbúðin sé mikið skemmd af völdum reyks og hita og það hafi þurft að rýma stigaganginn þar sem var mikill reykur sem barst inn í íbúðir fjölbýlishússins.

„Það eru tólf íbúðir í húsinu og það var ákveðið að rýma húsið og tveir íbúar voru fluttir með stigabíl frá svölunum á efstu hæðinni,“ segir Jens Heiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert