Erum orðin of sein í tilfelli fjölda barna

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ofbeldi meðal barna, þar sem börn eru gerendur, er að stóraukast í allri tölfræði að sögn Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra. Hann nefnir meðal annars aukna gengjamyndun og fjölgun barnaverndarmála þar sem börn eru gerendur sem dæmi um það.

„Tvímælalaust tengist þetta einhverri jaðarsetningu, félagslegri, og getur tengst vanlíðan, erfiðleikum á heimili, félagslegum vandræðum í skóla, tungumálaörðugleikum, allt það sem að gerir okkur að þeim einstaklingum sem við erum og tengjumst dag frá degi,“ segir ráðherrann í samtali við mbl.is, spurður hvort vandamálið tengist á einhvern hátt jaðarhópum eða félagslegri útskúfun.

„Rannsóknir sýna að þeim mun betur sem fólk tengist félagslega, þeim mun minni líkur eru á því að svona brjótist út,“ bætir hann við um ofbeldishegðun ungmenna.

Aldrei fleiri börn í gæsluvarðhaldi vegna alvarlegra brota

Ásmundur og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kynntu fyrr í dag aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna á blaðamannafundi í Hannesarholti.

Ásmundur segir mjög mikilvægt vera að stíga inn með fjölþættum hætti en að í hans huga sé lykillinn að því að vinna bug á vandamálinu vera að ólíkir aðilar vinni saman.

„Við erum oft að vinna gríðarlega mikið með afleiðingarnar þegar börnin eru komin í þyngstu úrræði,“ segir hann. Aldrei hafi verið fleiri börn í gæsluvarðhaldi og á borði Barna- og fjölskyldustofu að hans sögn. 

„Þá erum við í rauninni orðin of sein. Þannig að ef við ætlum að ná að grípa fyrr inn þá verða allir að koma að því,“ bætir Ásmundir við, en að hans sögn er ofbeldismenning barna að einhverju marki að gerast í öllum hinum vestræna heimi.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Félagslegur vítahringur

Spurður út í hvaða áhrif samfélagið hafi á þessa ofbeldismenningu ungmenna og hvaða áhrif sú menning hafi á samfélagið segir Ásmundur marga samfélagsþætti spila inn í. Þar á meðal nefnir hann samfélagsmiðla, fjölbreyttari samfélög og að einhverju leyti Covid-faraldurinn og færri félagslegar tengingar eftir hann.

„Samfélagslegu áhrifin eru gríðarleg, svo ekki sé talað um fyrir þessa einstaklinga sjálfa og þennan vítahring sem þeir eru í félagslega sem veldur því að það brýst út í ofbeldi með þessum hætti,“ segir ráðherrann.

Aðgerðirnar eru fjórtán en heildarkostnaður þeirra verður um 360 milljónir króna yfir tveggja ára tímabil. Á blaðamannafundi í dag kom fram að verkefnið muni hefjast í október og að fyrsta skýrslan um stöðu mála verði tilbúin í desember, en að þær verða í kjölfarið birtar á sex mánaða fresti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert