„Gott að gosinu lauk á þessum tímapunkti“

Vinna við svokallaðan varnarkraga innan varnargarðana við Svartsengi er í …
Vinna við svokallaðan varnarkraga innan varnargarðana við Svartsengi er í fullum gangi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinna við svokallaðan varnarkraga innan varnargarðana við Svartsengi er í fullum gangi en hraunkælingunni hefur verið hætt.

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, við mbl.is en eldgosinu við Sundhnúkagíga lauk um síðustu helgi eftir að hafa staðið yfir frá 29. maí.

„Þó svo að eldgosinu sé lokið þá er þar með ekki sagt að viðbragð almannavarna sé ekki lengur til staðar. Samhæfingarstöðin er virk og við erum með menn á bakvöktum að fylgjast með. Vinna við varnargarðana heldur áfram á fullum krafti og það náðist að loka fyrir þær hraunspýjur sem menn höfðu áhyggjur af,“ segir Hjördís.

Meta hvernig hraunkælingin gekk

Hún segir að verið sé að meta hvernig hraunkælingin gekk en öllum búnaði varðandi hana var pakkað saman í gær.

Hjördís segir að viðbragðsaðilar séu fegnir því að eldgosinu sé lokið en séu meðvitaðir um að atburðarrásin geti endurtekið sig en nýafstaðið eldgos var það fimmta á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember.

„Það veit enginn hvert framhaldið verður. Við erum öll á tánum og fylgjumst grannt með stöðunni en það er óhætt að segja að það var gott að gosinu lauk á þessum tímapunkti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert