Íbúar ekki enn getað vitjað eigna sinna

Eldur kom upp í íbúðarhúsi á Akranesi fyrr í dag.
Eldur kom upp í íbúðarhúsi á Akranesi fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skemmdir eru á fjölbýlishúsinu á Akranesi þar sem eldur kviknaði í morgun og hafa íbúar enn ekki getað vitjað eigna sinna.

Eld­ur kom upp í íbúð á jarðhæð í þriggja hæða fjöl­býl­is­húsi á Akra­nesi í morg­un. Íbúðin var mann­laus en rýma þurfti allar 12 íbúðir hússins vegna reyks.

Vinnu slökkviliðsins á vettvangi lauk rétt fyrir hálf tólf í morgun en þá var vettvangurinn afhentur lögreglunni á Vesturlandi sem sér um rannsókn á upptökum eldsins.

Íbúðin mikið skemmd

„Íbúðin er mikið skemmd af reyk, hita og sóti en stigahúsið er líka mikið skemmt af sóti. Sót og reykur fór um allt stigahúsið og reykur inn í flestar íbúðirnar í stigaganginum,“ seg­ir Jens Heiðar Ragn­ars­son, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliðinu á Akra­nesi og Hval­fjarðarsveit, í samtali við mbl.is.

Hann segir að mögulega verði nóg að lofta um einhverjar íbúðir en að sótskemmdir séu í íbúðum á jarðhæð hússins.

Eins og fyrr segir voru allir íbúðir hússins rýmdar en íbúar hafa ekki enn getað vitjað eigna sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert