Koma þarf á verklagi fyrir ósakhæf börn

Guðrún og Ásmundur Einar kynntu aðgerðirnar.
Guðrún og Ásmundur Einar kynntu aðgerðirnar. mbl.is/Árni Sæberg

Auka þarf þverfaglega nálgun í ofbeldismálum meðal barna, koma á verklagi fyrir ósakhæf börn og úrræðum fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi, og efla samfélagslögreglu.

Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi í Hannesarholti í dag þar sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra kynntu aðgerðir stjórnvalda gegn ofbeldi meðal barna.

Heildarkostnaður við aðgerðirnar eru metnar á um 360 milljónir króna yfir tveggja ára tímabil.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Ofbeldismenning að þróast

Ákveðin ofbeldismenning virðist vera að þróast meðal barna hér á landi sem svipar til þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað á mörgum Norðurlöndum.

Þannig hefur tilkynningum til lögreglu og barnaverndar þar sem grunur er um að barn beiti ofbeldi fjölgað verulega.

Fjöldi tilkynninga til barnaverndar um að barn beiti ofbeldi meira en tvöfaldaðist á árunum 2016–2023 eða úr 461 tilviki í 1.072. Þá tvöfaldaðist fjöldi grunaðra undir 18 ára í líkamsmeiðingarmálum tilkynntum til lögreglu frá 2016 til 2023 eða úr 95 tilkynningum í 186.

Grunaðir í meiriháttar eða stórfelldum líkamsárásum undir 18 ára árið 2023 voru 18% af heildarfjölda og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá 2016,“ segir í tilkynningunni.

Fjórtán aðgerðir

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að breiður hópur haghafa hafi staðið samhentur að aðgerðunum sem verður hrint í framkvæmd af mennta- og barnamálaráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Reykjavíkurborg, Barna- og fjölskyldustofu, embætti ríkislögreglustjóra og lögreglu.

„Þessir aðilar mynda aðgerðarhóp sem hefur það hlutverk að leiða saman mismunandi aðila, samstilla aðgerðir og fylgja þeim eftir.

Aðgerðahópurinn metur árangur af aðgerðum reglulega og taka áherslur mið af árangri. Sömuleiðis verður stofnað til nýrra aðgerða eftir þörfum. Reglulegar stöðuskýrslur um aðgerðir og árangur verða nýttar til áframhaldandi stefnumótunar í málaflokknum.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir aðgerðirnar fjórtán sem snúa að forvörnum, inngripi og meðferð:

  1. Auka þverfaglega nálgun í ofbeldismálum meðal barna
  2. Styðja við meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu vegna biðlista
  3. Koma á verklagi fyrir ósakhæf börn og úrræðum fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi
  4. Endurskoða meðferð mála og úrræða fyrir sakhæf börn
  5. Efla samfélagslögreglu
  6. Innleiða svæðisbundið samráð um allt land
  7. Efla Landsteymi Miðstöðvar mennta- og skólaþjónustu sem styður við börn, foreldra og skóla.
  8. Setja á fót úrræði fyrir ungmenni 16-17 ára sem eru hvorki í vinnu né námi
  9. Efla ungmennastarf í Breiðholti
  10. Efla Flotann – flakkandi félagsmiðstöð
  11. Auka fræðslu og forvarnir
  12. Virkja foreldrastarf í umhverfi barna – SAMAN hópurinn
  13. Hefja alþjóðlegt samvinnuverkefni um sjálfbært samfélag
  14. Samhæfa aðgerðir og móta stefnu til framtíðar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert