Koma þarf á verklagi fyrir ósakhæf börn

Guðrún og Ásmundur Einar kynntu aðgerðirnar.
Guðrún og Ásmundur Einar kynntu aðgerðirnar. mbl.is/Árni Sæberg

Auka þarf þverfag­lega nálg­un í of­beld­is­mál­um meðal barna, koma á verklagi fyr­ir ósakhæf börn og úrræðum fyr­ir börn sem beita al­var­legu of­beldi, og efla sam­fé­lagslög­reglu.

Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamanna­fundi í Hann­es­ar­holti í dag þar sem Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, og Guðrúnu Haf­steins­dótt­ur dóms­málaráðherra kynntu aðgerðir stjórn­valda gegn of­beldi meðal barna.

Heild­ar­kostnaður við aðgerðirn­ar eru metn­ar á um 360 millj­ón­ir króna yfir tveggja ára tíma­bil.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu á vef Stjórn­ar­ráðsins.

Of­beld­is­menn­ing að þró­ast

Ákveðin of­beld­is­menn­ing virðist vera að þró­ast meðal barna hér á landi sem svip­ar til þeirr­ar þró­un­ar sem hef­ur átt sér stað á mörg­um Norður­lönd­um.

Þannig hef­ur til­kynn­ing­um til lög­reglu og barna­vernd­ar þar sem grun­ur er um að barn beiti of­beldi fjölgað veru­lega.

Fjöldi til­kynn­inga til barna­vernd­ar um að barn beiti of­beldi meira en tvö­faldaðist á ár­un­um 2016–2023 eða úr 461 til­viki í 1.072. Þá tvö­faldaðist fjöldi grunaðra und­ir 18 ára í lík­ams­meiðing­ar­mál­um til­kynnt­um til lög­reglu frá 2016 til 2023 eða úr 95 til­kynn­ing­um í 186.

Grunaðir í meiri­hátt­ar eða stór­felld­um lík­ams­árás­um und­ir 18 ára árið 2023 voru 18% af heild­ar­fjölda og hef­ur hlut­fallið ekki verið hærra frá 2016,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Fjór­tán aðgerðir

Í til­kynn­ing­unni kem­ur jafn­framt fram að breiður hóp­ur hag­hafa hafi staðið sam­hent­ur að aðgerðunum sem verður hrint í fram­kvæmd af mennta- og barna­málaráðuneyt­inu, dóms­málaráðuneyt­inu, heil­brigðisráðuneyt­inu, Sam­bandi ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Miðstöðvar mennt­un­ar og skólaþjón­ustu, Reykja­vík­ur­borg, Barna- og fjöl­skyldu­stofu, embætti rík­is­lög­reglu­stjóra og lög­reglu.

„Þess­ir aðilar mynda aðgerðar­hóp sem hef­ur það hlut­verk að leiða sam­an mis­mun­andi aðila, sam­stilla aðgerðir og fylgja þeim eft­ir.

Aðgerðahóp­ur­inn met­ur ár­ang­ur af aðgerðum reglu­lega og taka áhersl­ur mið af ár­angri. Sömu­leiðis verður stofnað til nýrra aðgerða eft­ir þörf­um. Reglu­leg­ar stöðuskýrsl­ur um aðgerðir og ár­ang­ur verða nýtt­ar til áfram­hald­andi stefnu­mót­un­ar í mála­flokkn­um.

Hér fyr­ir neðan má sjá lista yfir aðgerðirn­ar fjór­tán sem snúa að for­vörn­um, inn­gripi og meðferð:

  1. Auka þverfag­lega nálg­un í of­beld­is­mál­um meðal barna
  2. Styðja við meðferðarúr­ræði Barna- og fjöl­skyldu­stofu vegna biðlista
  3. Koma á verklagi fyr­ir ósakhæf börn og úrræðum fyr­ir börn sem beita al­var­legu of­beldi
  4. End­ur­skoða meðferð mála og úrræða fyr­ir sak­hæf börn
  5. Efla sam­fé­lagslög­reglu
  6. Inn­leiða svæðis­bundið sam­ráð um allt land
  7. Efla Land­steymi Miðstöðvar mennta- og skólaþjón­ustu sem styður við börn, for­eldra og skóla.
  8. Setja á fót úrræði fyr­ir ung­menni 16-17 ára sem eru hvorki í vinnu né námi
  9. Efla ung­menn­astarf í Breiðholti
  10. Efla Flot­ann – flakk­andi fé­lags­miðstöð
  11. Auka fræðslu og for­varn­ir
  12. Virkja for­eldrastarf í um­hverfi barna – SAM­AN hóp­ur­inn
  13. Hefja alþjóðlegt sam­vinnu­verk­efni um sjálf­bært sam­fé­lag
  14. Sam­hæfa aðgerðir og móta stefnu til framtíðar
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert