Samfélagsmiðlar líkleg orsök ofbeldishegðunar barna

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir mikilvægt að rýna í samfélagið og …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir mikilvægt að rýna í samfélagið og komast að því hvað það er sem veldur vanlíðan barna og að þau grípi til andfélagslegrar hegðunar. mbl.is/Árni Sæberg

„Aukinn fjöldi barna telur sig vera hluta af gengi og sömuleiðis er fjölgun í því að ákveðinn hluti þeirra telur sig þurfa að bera vopn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. Hún segir í samtali við mbl.is þessa þróun vera mikið áhyggjuefni.

Hún telur mikilvægt að komast að kjarnanum og sjá hvað það er í samfélaginu sjálfu sem valdi því að börnum líði illa og þau grípi til andfélagslegrar hegðunar.

Aðgerðir stjórnvalda gegn ofbeldi meðal barna voru kynntar á fundi í Hannesarholti í dag, en þar var ásamt Guðrúnu Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Vísbendingar um að samfélagsmiðlar séu einn orsakavaldanna

„Margt bendir til þess að samfélagsmiðlar spili þar nokkuð stórt hlutverk,“ svarar Guðrún, spurð hvað í samfélaginu hafi ýtt undir þessa þróun, án þess þó að vilja fullyrða að neitt eitt sé þar að verkum.

„Börnin okkar eru að deila ofbeldisbrotum á samfélagsmiðlum sín á milli, þannig að það er hluti af þessu,“ bætir hún við.

Spurð hvort hún telji að þau börn sem sýni þessa hegðun finnist þau vera útskúfuð og finni enga undankomuleið nema að sýna ofbeldishegðun, svarar Guðrún játandi og segir margt benda til þess að þessi börn séu í erfiðri félagslegri stöðu og að mikilvægt sé að kryfja það vel sem valdi þessari vanlíðan barna.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, á blaðamannafundi í Hannesarholti í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægt að vinna með börnum

Aðspurð segir Guðrún mjög mikilvægt og nauðsynlegt að vinna með börnum en ekki bara fyrir þau. Þá segir hún einn þátt forvarnarverkefnisins sem fellur undir hennar ráðuneyti vera að fjölga samfélagslögreglumönnum.

Það sé löggæsla úti í nærsamfélaginu sem gengur út á það að byggja upp traust og samtal við börnin. „Þessi löggæsla er í mikilli nánd við börnin þannig þau eigi þar bakhjarl sem þau treysta og geta leitað til ef þeim líður þannig,“ segir Guðrún.

Þörf á að taka betur utan um börnin

„Við höfum vitneskju um það að ofbeldisbrotum barna hefur fjölgað og við höfum sömuleiðis upplýsingar um það að alvarlegum líkamsárásum meðal barna hefur líka fjölgað,“ segir Guðrún.

Hún segir að mikilvægt sé að taka á vandanum sem virðist vera að byrja hér á landi og þörf á því að taka betur utan um börnin. Guðrún bætir við að einnig sé mikilvægt að gera þetta í þverfaglegu samstarfi, þannig að í raun sé verið að virkja allt kerfið. Verið sé að virkja ráðuneytin, barnaverndarnefndir, skóla, félagsmiðstöðvar og svo framvegis.

Forvarnarvinnan á að hefjast von bráðar

Á blaðamannafundinum kom fram að forvarnarvinnan eigi að hefjast eigi síðar en í október og mun hún standa yfir í um tvö ár. Fyrsta stöðuskýrslan á að koma í desember, sú næsta í júní og svo áfram á sex mánaða fresti. Guðrún segir ekki hægt að setja eiginlegan endapunkt á vinnu sem þessa.

Hún segir mikilvægt að ná góðum tökum á þessum málaflokki og að þau hafi séð ákveðin mynstur hjá löndunum í kring og þá sé gott að grípa inn í aðstæður eins fljótt og hægt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka