Sást draga fram getnaðarlim sinn

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða fangelsi auk þess sem honum er gert að greiða tveimur konum sínar 400.000 krónurnar í bætur hvorri fyrir að hafa berað kynfæri sín í augsýn þeirra og á almannafæri og þar með brotið gegn 209. grein almennra hegningarlaga sem leggur refsingu við því að særa blygðunarsemi manna með lostugu athæfi.

Er manninum gerð refsing fyrir tvö brot. Háttsemi hans í því fyrra er lýst með því að dæmdi hafi í mars fyrir rúmu ári „gengið að glugga og berað kynfæri sín og handleikið þau og þannig sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi sem var til þess fallið að særa blygðunarsemi þeirra sem urðu vitni að því og var til opinbers hneykslis“.

Í síðara tilfellinu, í október í fyrra, var honum gefið að sök að hafa spurt konu hvað tímanum liði þar sem þau voru stödd fyrir utan verslun. Hafi hann í framhaldinu tekið buxurnar niður fyrir getnaðarlim sinn, er var í hálfri reisn, og sýnt konunni hann áður en hann gekk á brott en hún tók af honum myndskeið á síma sinn.

Þurfti að kasta vatni

Konan, sem fyrra brot mannsins var framið gegn, kvaðst hafa verið á heimleið úr samkvæmi og verið að opna lás á reiðhjóli sínu er stóð fyrir utan hús nokkurt. Hafi maður, er staddur var inni í húsinu, þá gengið að glugganum og viðhaft þá háttsemi sem lýst er hér að framan. Styður upptaka öryggismyndavélar framburð konunnar.

Ákærði bar því við hjá lögreglu að hann hefði þurft að kasta vatni, staðið upp frá borði er hann sat við og ekki veitt athygli myndavél á vettvangi. Skyndilega hafi konan komið þar að og verið sýnilega brugðið áður en hún sneri sér við og hélt í átt frá ákærða. Hann hafi svo klárað að pissa.

Í síðara tilfellinu, í október, hafi lögregla komið á vettvang og hitt brotaþola þar fyrir grátandi og í uppnámi. Kvaðst hún ekki þekkja ákærða en lýsti honum sem útlendingi. Hún hafi verið í kaffihléi frá vinnu og lagt leið sína í verslunina.

Maðurinn hafi staðið fyrir utan er hún fór inn og verið þar enn er hún kom út og þá spurt á ensku hvað klukkan væri. Hefði brotaþola þótt þetta undarlegt þar sem maðurinn hefði borið áberandi úr á hendi sér.

Þurfti enn að kasta vatni

Í framhaldi af spurningunni hafi ákærði viðhaft þá háttsemi sem áður er lýst. Aflaði lögregla sér myndbandsupptöku af vettvangi og segir í skýrslu að klukkan 12:57:47 hafi maðurinn byrjað að fara með hægri hönd sína niður í buxur sínar og losað buxurnar frá með vinstri þumalfingri. Klukkan 12:57:49 hafi hann sést draga getnaðarlim sinn fram. Konan hafi séð þetta og gengið í burtu.

Hafi hann svo gengið af stað í átt að konunni en hún brugðist við með því að taka nokkur skref til hliðar, eins og hún vildi forðast manninn, en hann hafi gengið áfram og fjarlægst myndavélina.

Var skýrsla tekin af manninum hjá lögreglu, að viðstöddum túlki, og kannaðist hann þar í fyrstu ekki við atburðarásina. Síðar bar hann við ölvun og kvaðst hafa verið búinn að snúa sér við er konan hafi komið. Hefði hann þurft að losa sig við þvag eins og í fyrra tilfellinu og ekki getað haldið í sér lengur. Orðrétt lýsir ákærði atburðum svo:

„Ég fór í búðina, ég ákvað að, hérna, að fá mér eina sígó þar sem er oft fólk bara að reykja þarna fyrir utan, ég gat ekki haldið lengur í mér, fór bara að pissa þarna, hugsaði að það myndi enginn koma.“

Trúverðugir og afdráttarlausir framburðir

Var það að lokum mat héraðsdóms að framburðir beggja brotaþola væru trúverðugir, konurnar hefði verið afdráttarlausar í frásögnum sínum og staðfastar. Vitni sem komu fyrir dóminn, þar á meðal lögreglumenn, drógu enn fremur upp skýra mynd af brotum ákærða.

Taldi dómari refsingu hans hæfilega ákveðna fjögurra ára fangelsi auk bótagreiðslna en ákærða var einnig gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun skipaðra réttargæslumanna beggja brotaþolanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert