Situr uppi með átjánfalda upphæð

Ágreiningurinn snérist um 55 þúsund krónur.
Ágreiningurinn snérist um 55 þúsund krónur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atvinnurekandi sem hafnaði að greiða verkamanni rúmar 55 þúsund krónur, situr uppi með rúma milljón krónur í málskostnað, auk þess að greiða starfsmanninum launagreiðslur upp á fyrrgreinda upphæð, eftir að Héraðsdómur Reykjaness felldi dóm þess efnis.

Taldi verkamaðurinn sig eiga inni laun upp á þessa upphæð og stefndi atvinnurekandanum vegna vangoldinna launa.

Taldi messenger skilaboð ófullnægjandi

Forsaga málsins er sú að verkamaðurinn sendi þrívegis skilaboð á atvinnurekandann um að hann yrði frá vinnu vegna bakverkja.

Fram kemur í dómi að verkamaðurinn hafði sent skilaboð í sms sendingu um veikindi fyrsta daginn af þeim þremur sem um ræðir en lét messenger samskiptaforritið duga hina dagana.

Atvinnurekandinn hafði tilkynnt um að tilkynna bæri veikindi með sms sendingu hvern þann dag sem veikindi stæðu yfir.

Fram kemur í reglum atvinnurekandans að tilkynna beri fjarveru með 15-60 mínútna fyrirvara en jafnframt að senda sms í tilgreint veikindanúmer.

Vari veikindi lengur en tvo daga er starfsmanni skylt að framvísa læknisvottorði til launadeildar.

Þá segir í reglunum að ef starfsmaðurinn fylgi ekki reglunum eftir beri að líta svo á að hann sé í launalausu leyfi.

Fékk sjö daga af níu greidda 

Fram kemur að verkamaðurinn var óvinnufær 5-13 desember. Fyrir dómi sagðist hann hafi skilið reglurnar sem svo að ef hann væri frá vinnu í meira en tvo daga þyrfti hann að skila inn læknisvottorði. Hann hafi hringt í heilsugæsluna 7.desember en hins vegar fékk hann ekki tíma fyrr en 8. desember.

Taldi atvinnurekandinn honum bæri ekki að greiða laun fyrir dagana 6. og 7. desember. Hins vegar fékk verkamaðurinn laun 5. desember annars vegar og 8.-13. desember eftir að læknisvottorð barst.

Engin ágreiningur um upphæðina 

Engin ágreiningur var um þá upphæð sem starfsmaðurinn bæri að greiða fyrir 6. og 7. desember og nam sú upphæð um 55 þúsund krónur.

Dómurinn tók afstöðu til þess hvort það væri nægjanlegt að senda veikindatilkynningu með messenger 6. og 7. desember en ekki gera líkt og reglur fyrirtækisins kváðu um.

Er það niðurstaða dómsins að starfsmanni bæri ekki að tilkynna veikindi með tvöföldum hætti.

Var atvinnurekandanum gert að greiða rúma milljón í málskostnað auk þess að greiða verkamanninum 55 þúsund krónur auk dráttarvaxta. Situr atvinnurekandinn því uppi með um átján sinnum meiri kostnað en ágreiningurinn snérist um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert