Skoðar hvort ríkið aðstoði fjölmiðla við netöryggi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir mikilvægt að skoða hvort skilgreina þurfi fjölmiðla sem rekstaraðila nauðsynlegrar þjónustu í netöryggislögum.

Á ríkisstjórnarfundi í morgun upplýsti Áslaug Arna ríkisstjórnina um þá alvarlegu netárás sem Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, mbl.is og K100, varð fyrir um helgina sem og um stöðu netöryggismála í landinu. Málaflokkurinn heyrir undir ráðuneyti Áslaugar.

Endurskoða þurfi stöðu fjölmiðla

Á fundinum fór hún yfir stöðu Árvakurs innan lagarammans um öryggi net og upplýsingakerfa mikilvægra innviða en þar eru fjölmiðlafyrirtækja ekki á skrá yfir rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu.

Áslaug segir að það þurfi að skoða frekar.

„Sú skrá fer eftir reglum að utan þar sem við erum með sambærilegar reglur og þar eru fjölmiðlar ekki undir. Það er eitthvað sem ég tel mikilvægt að skoða, hvort fjölmiðlar ættu að heyra undir slíka þjónustu.“

Hún segir að það myndi til dæmis fela í sér að CERT-IS, netöryggissveit ríkisins, myndi hafa beina aðkomu að netöryggismálum fjölmiðla.

Leggur til netöryggissetur

Í nýútkominni ársskýrslu fjölmiðlanefndar lagði forstjóri Fjarskiptastofu til að skoða þann kost að stofna svo­kallað netör­ygg­is­set­ur hér á landi.

Slíkt setur myndi hafa það að hlut­verki að sam­hæfa alla netör­yggis­tengda starf­semi í sam­fé­lag­inu en forstjórinn sagði í viðtali við Morgunblaðið að slíkt fyrirkomulag hafi reynst vel í öðrum löndum.

Koma af stað samstarfsvettvangi

Spurð hvort ráðuneytið hafi til skoðunar að koma einhverri slíkri starfsemi á laggirnar segir Áslaug:

„Við erum að vinna að því að koma af stað samstarfsvettvangi opinbera aðila og atvinnulífsins um netöryggi nú í haust. Þetta er liður af þeim aðgerðum sem við höfum boðað til að stórefla netöryggi á Íslandi. Partur af því er að bera saman stjórnskipan netöryggismála á Íslandi við Norðurlöndin.“

Hún segir gríðarlega mikilvægt að efla samstarf og samhæfingu stofnanna og atvinnulífs í málaflokknum „til þess að fólk geti aflað sér þekkingu, miðlað reynslu og komið á framfæri þeim stuðningi sem býðst.“ 

„Ég held að þessi samstarfsvettvangur muni ná utanum margar af þeim áskorunum sem verið er að lýsa gagnvart upplýsingaskiptum, vitundarvakningu og áhættumati,“ segir Áslaug

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka