Umfangsmiklar mansalsaðgerðir lögreglu

mbl.is/Eggert

Lögregla fór í aðgerðir á nærri 40 stöðum þar sem betl, vændi og önnur brotastarfsemi er talin hafa þrifist vikuna 3-9. júní. 32 meintum þolendum var boðin aðstoð en einungis einn þeirra þáði hana og farið var með hann í Bjarkarhlíð.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Facebook.

Aðgerðirnar voru hluti af alþjóðlegum aðgerðadögum Europol, Frontex og Interpol gegn mansali og náðu þær til 39 landa. 

Fóru 90 sinnum á vettvang 

„Farið var um 90 sinnum í eftirlit á staði þar sem vændi, betl og önnur brotastarfsemi er talin þrífast. Í heildina voru þetta nálægt 40 staðir. Þá voru höfð afskipti af 221 einstaklingi þessa viku á landamærum og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu á Facebook.

Einn handtekinn 

Fram kemur að meintir þolendur séu frá 16 löndum og var meirihluti þeirra í vændisstarfsemi.

Einn var handtekinn eftir leit á nuddstofu í Reykjavík vegna gruns um mansal. Umrædda daga voru enn fremur greindar 614 flugferðir m.t.t. hugsanlegra fórnarlamba mansals og brotamanna.

Fá yfirsýn yfir stöðu mansals á Íslandi 

„Eftir aðgerðadagana hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafið rannsókn á þremur nýjum málum þessu tengdu. Markmið verkefnisins var margþætt, m.a. að fá yfirsýn yfir stöðu mansals á Íslandi, bera kennsl á fórnarlömb mansals og veita þeim viðeigandi aðstoð og auka eftirlit á landamærum m.t.t. fórnarlamba mansals og brotamanna. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum og embætti ríkislögreglustjóra tóku þátt í aðgerðadögunum og fengu aðstoð frá Skattinum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka