Vegalokanir valda gremju íbúa Hleinahverfis

Myndin sýnir lokun Garðahraunsvegar (gamla Álftanesvegar) hjá Prýðishverfi.
Myndin sýnir lokun Garðahraunsvegar (gamla Álftanesvegar) hjá Prýðishverfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúar í Hleinahverfi í Garðabæ eru afar ósáttir við lokanir á Garðahraunsvegi inn á Herjólfsbraut og síðan Álftanesvegi, sem gera það að verkum að þeir þurfa að aka sífellt lengri leið heim til sín.

Lengi hefur staðið styr um lokun Garðahraunsvegar við Herjólfsbraut. Í síðustu viku tók Vegagerðin síðan ákvörðun um að loka fyrir beygjuafrein af Álftanesvegi inn á Garðahraunsveg vegna framkvæmda, sem gerir það að verkum að nú geta íbúar Hleinahverfis ekki farið þá leið heldur. Þannig að þá eru aðeins tvær leiðir fyrir íbúa Hleinahverfis að komast heim til sín, annars vegar að aka alla leið að Bessastöðum, snúa við á hringtorginu og aka síðan inn á Garðaveg inn í Hleinahverfi eða að fara í gegnum íbúðahverfi við Skjólvang eða Herjólfsgötu í Hafnarfirði. Ljóst er að báðar þessar leiðir eru töluverður aukakrókur fyrir íbúa Hleinahverfis frá því sem var fyrir lokanir.

Framkvæmdir standa nú yfir við beygjuafrein af Álftanesvegi inn á …
Framkvæmdir standa nú yfir við beygjuafrein af Álftanesvegi inn á Garðahraunsveg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegagerðin hóf framkvæmdir án þess að upplýsa um þær áður

Egill Daði Gíslason, deildarstjóri umhverfis- og framkvæmda hjá Garðabæ, tjáði blaðamanni að Vegagerðin hefði tekið þessa ákvörðun um lokun nú án þess að upplýsa bæinn né íbúa Hleinahverfis um það áður, en sú lokun muni einungis standa til 30. júní. Hann segist skilja að íbúar Hleinahverfis séu ósáttir við þessar lokanir á Garðahraunsvegi, en verið sé að vinna í því að athuga þann möguleika með að opna tímabundið fyrir bílaumferð við gatnamótin að Herjólfsbraut aftur á meðan á framkvæmdum við gatnamót Garðahraunsvegar og Álftanesvegar stendur, þó framkvæmdir við nýja aðkomu aðreinar Garðahraunsvegar muni standa lengur eða fram í ágúst, að sögn Egils.

Aðspurður um ástæðu þess að lokað hefði verið fyrir umferð niður Herjólfsbraut frá Garðahraunsvegi á sínum tíma sagði hann að til sé gildandi deiliskipulag þar sem segir að þarna eigi að vera lokað, en tekin hafi verið ákvörðun um að hafa ekki algjöra lokun þar þannig að strætó og sjúkrabílar geti komist þar um en það sé einnig í tengslum við að Hrafnista sé þar nálægt.

Hleinahverfi er rétt norðan við Hrafnistu í Hafnarfirði, en er …
Hleinahverfi er rétt norðan við Hrafnistu í Hafnarfirði, en er hins vegar hluti af Garðabæ. Aðkoma að hverfinu í gegnum Garðabæ hefur hins vegar verið takmörkuð sem íbúar eru ósáttir við. Kort/Map.is

Ekkert hlustað á kvartanir íbúa Hleinahverfis 

Mikil umræða hefur verið um þessar lokanir á íbúasíðum samskiptamiðla undanfarið þar sem íbúar hafa tjáð óánægju sína með þær. Blaðamaður ræddi við Gunnar H. Jónsson sem búið hefur í Hleinahverfi síðastliðin 24 ár. Hann kveðst hafa getað ekið þarna um óáreitt í um 18 ár en segist fyrst hafa lesið um fyrirhugaða lokun Garðahraunsvegar að Herjólfsbraut í Hafnarfjarðarblaðinu. Þá segist hann hafa barist fyrir því í mörg ár að íbúar í Hleinahverfi fái að aka þar um, en án árangurs.

Þessi lokun hafi haft nokkurn aðdraganda, hann hafi í gegnum árin reglulega sent bréf til bæjarstjórnar Garðabæjar, en rökin sem hann hafi fengið voru þau að íbúar í Prýðishverfi hafi kvartað undan því að Garðahraunsvegur væri lífshættulegur vegur þrátt fyrir að búið væri að gera göngu- og reiðhjólastíga meðfram hverfinu, en Gunnar gefur lítið fyrir þau rök. Honum og íbúum Hleinahverfis hafi verið bent á að aka í gegnum Hafnarfjörð til að komast leiðar sinnar, sem sé sú leið sem hann neyðist til að fara um þótt honum finnist það afleitt.

Hafnfirðingar ósáttir við aukna umferð og rask 

Ofangreindum lokunum hefur hins vegar einnig verið mótmælt í Hafnarfirði þar sem þær valda töluvert meiri umferð og raski fyrir bæjarbúa þar, meðal annars fyrir starfsmenn og íbúa á Hrafnistu í Hafnarfirði, sem staðsett er við Hraunvang í Hafnarfirði eða alveg við jaðarinn á Hleinahverfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert