Vildi sauma þjóðbúning en lenti ítrekað á vegg

Hér má sjá Sólrúnu í búningi ömmu sinnar og Emily …
Hér má sjá Sólrúnu í búningi ömmu sinnar og Emily Lehman, klædda búningnum sem Sólrún saumaði á dóttur sína. mbl.is/Ellen

Sólrún Ásta Steinsdóttir klæðskerameistari var ein þeirra sem spókaði sig um á 17. júní klædd íslenskum þjóðbúningi. Búninginn erfði hún frá ömmu sinni og nöfnu og hefur hún haldið mikið upp á hann alla tíð.

Árið 1997, þegar Sólrún var 17 ára, ákvað hún að sauma nýtt pils fyrir búninginn og þá var ekki aftur snúið, áhuginn situr enn eftir.

„Þegar ég var 17 ára þá saumaði ég nýja skyrtu af því að það fylgdi ekki skyrta með og saumaði mér nýtt pils af því hitt var aðeins of stutt og ég vildi hafa það alveg skósítt. Þetta er erfðagripur og mér þykir ótrúlega vænt um hann, hún [amma] sem sagt dó áður en ég fæddist þannig þetta er í rauninni eina tengingin mín við hana,“ segir Sólrún.

Auðveldara fyrir 26 árum 

Að sögn Sólrúnar reyndist fremur einfalt að fá leiðbeiningar um hvernig ætti að sauma þjóðbúningapils og skyrtu og gera vel árið 1997. Á sínum tíma hafi hún fengið upplýsingarnar hjá Heimilisiðnaðarfélaginu.

Þegar hún ætlaði að sauma þjóðbúning fyrir dóttur sína í fyrra í tilefni af peysufatadegi Verzlunarskóla Íslands, 26 árum síðar, var öldin önnur. Leiðbeiningabæklingurinn sem hún hafði fengið var týndur og tröllum gefinn og virtist hvergi að finna hjá Heimilisiðnaðarfélaginu er þangað var leitað.

Á endanum fannst þó hluti nauðsynlegra leiðbeininga og Sólrún sótti námskeið til þess að brúa bilið, til dæmis til þess að læra að vefa og baldera.

„Eins og það eru miklar reglur um þjóðbúninginn þá virtust ekki vera til neinar ritaðar, aðgengilegar reglur, það er náttúrulega til fullt af möppum í Heimilisiðnaðarfélaginu en það vantar svo að það sé til eitthvað handhægt,“ segir Sólrún.

Þekkingin lifir hjá fáum

Þá segir hún aðgengi að upplýsingum fyrir fólk sem langi að sauma sér þjóðbúning frá grunni ekki mikið og það kosti sitt í formi námskeiða.

„Þekkingin virðist lifa hjá svolítið fáum og aðgengi að þekkingunni er svolítið dýrt. Það gerir svona stigsmun á hverjir fá sér búning,“ segir Sólrún. „Þarna myndast þessi gjá.“

Með sinn þekkingargrunn gat Sólrún klórað sig fram úr þeim vanda sem kom upp hverju sinni en veggirnir sem hún lenti á kveiktu þá hugmynd að koma upp saumaklúbbi í kringum þjóðbúningasaum, ásamt fleirum.

„Við byrjuðum umræðu í fyrrasumar inni í hópnum „Þjóðbúningar – áhugafólk“ um að stofna saumaklúbb þar sem við gætum bara hist, konur sem eru sjálfar að reyna að finna út úr þjóðbúningunum. Við sem höfum kannski ekki efni eða tök á að fara á námskeið en okkur langar í samfélagi með einhverjum öðrum að finna svolítið bara út úr þessu af því það er hellings þekking sem er samt úti í samfélaginu og rosa mismunandi,“ segir Sólrún og nefnir að fólk sé vant mismunandi aðferðum þegar komi að saumnum.

Best ef þetta væri aðgengilegt á YouTube

Með því að hefja umræðuna og stofna saumaklúbb vilji þær búa til vettvang til þess að miðla þekkingu til þeirra sem hafi áhuga á. Hugmyndin hefur legið í dvala en helst vildi Sólrún að leiðbeiningarnar sem um ræðir væru aðgengilegar á YouTube.

„17. júní er ágætis spark í rassinn að fara af stað aftur. Það er ótrúlega mikill vilji heyrist mér úti í samfélaginu hjá konum til þess að gera búninginn sýnilegri. Gera hann aðgengilegri og að þú þurfir ekki að eiga milljón til þess að geta klætt þig upp á 17. Júní heldur gætirðu kannski gert það fyrir eitthvað minna,“ segir Sólrún.

Menningararfleifð og ótrúleg saga

„Mig langar að búa til vettvang þar sem ein kann eitt og önnur kann annað og við getum kannski stutt hvora aðra í þessari vegferð,“ segir Sólrún og bætir við:

„Þetta er bæði menningararfleifð og ótrúleg saga sem er á bak við hann og tenging við formæður okkar en aðallega er þetta eitthvað sem sameinar. Maður fer niður í bæ í upphlut á 17. júní og brosir til annarra sem eru í upphlut. Ég myndi vilja sjá miklu fleiri í þjóðbúningum á Íslandi og myndi vilja sjá meiri notkun á búningunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka