Vill að netöryggi fjölmiðla verði skoðað

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptamálaráðherra, mætir til fundarins í …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptamálaráðherra, mætir til fundarins í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menningar- og viðskiptaráðherra, vill að netöryggi íslenskra fjölmiðlar verði tekið til sérstakrar skoðunar. Hún man ekki eftir árás á íslenskan fjölmiðil eins umfangsmikilli og þeirri sem gerð var á Árvakur um helgina.

Eins og fram hef­ur komið réðst rúss­nesk­ur hakk­ara­hóp­ur á net­kerfi Árvak­urs, útgáfufyrirtæk­is Morg­un­blaðsins, í gær. Gögn úr innra kerfi útgáfufélagsins voru læst og dul­kóðuð en ekk­ert bend­ir til þess að upp­lýs­ing­um hafi verið lekið.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir árásina grafalvarlega en á ríkisstjórnarfundi í dag stakk hún upp á því að fjölmiðlar á Íslandi yrðu betur vaktaðir með tilliti til netárása.

„Við ræddum þetta á ríkisstjórnarfundi. Eitt af því sem er verið að horfa til er að fjölmiðlar yrðu skoðaðir sérstaklega varðandi netöryggismál. Af því að fjölmiðlar gegna svo mikilvægu hlutverki í samfélagi nútímans,“ segir Lilja í samtali við mbl.is en hún segir netárásina vera árás á lýðræði í landinu.

Tillagan hefur ratað á borð háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.

„Þetta er ekkert annað en ofbeldi.“

Lilja bendir á að fjölmiðlar reiði sig á mikið á hinn tækni og „hinn stafræna heim“ sem þýði að árásir sem slíkar geti haft mun meiri áhrif í dag en áður.

„Þeir eru viðkvæmari en þeir voru en fyrir 30 árum gagnvart árásum af þessum toga,“ bætir hún við.

„Ég man ekki til þess að það hafi verið önnur svona umfangsmikil árás á fjölmiðil. En út af þessu mikilvæga hlutverki sem fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélögum, þá er þetta meira áberandi,“ segir Lilja enn fremur

Hún segir netárásina þó grafalvarlega. „Þetta er ekkert annað en ofbeldi.“

Rannsókn nauðsynleg áður en fullyrt er um tengsl við innrásina í Úkraínu

Engin bein tengsl hafa fundist milli hakk­ara­gengisins sem réðst á Árvakur og stjórnvalda í Kreml­ en það er þó tal­ið hafa sterk tengsl við rúss­neska net­glæpa­hóp­inn Conti, sem styður Pútín.

Lilja segir mikilvægt að ríkislögreglustjóri, utanríkisráðuneytið og fleiri sem bera ábyrgð á þjóðaröryggi taki málið til skoðunar áður en ályktanir eru dregnar hvort þessi árás tengist stríðinu í Úkraínu.

„Það er hins vegar þannig að það hefur átt sér stað aukning í netárásum frá Rússlandi og auðvitað er það svo að við búum auðvitað við mun flóknari og vandasamari heim eftir innrásarstríð Rússa í Úkraínu,“ bætir hún við. „Þetta er stríð í Evrópu og það teygir anga sína mjög víða.“

Netárásum fjölgað verulega 

Eins og Lilja segir hefur netárás­um fjölgað veru­lega á Íslandi eft­ir að Rúss­ar réðust inn í Úkraínu í fe­brú­ar 2022.

Árið 2022 gerði rúss­nesk­ur netþrjóta­hóp­ur álags­árás á vef Frétta­blaðsins. Þann sama dag barst blaðinu bréf frá rúss­neska sendi­ráðinu þar sem af­sök­un­ar­beiðni var kraf­ist fyr­ir að hafa birt mynd af fót­umtroðnum rúss­nesk­um fána.

Hóp­ur rúss­neskra netþrjóta er einnig tal­inn hafa reynt inn­brot í tölvu­kerfi lög­regl­unn­ar árið 2022, eins og mbl.is greindi frá í fyrra.

Þegar leiðtoga­fund­ur Evr­ópuráðs var hald­inn í Hörpu gerði ann­ar rúss­nesk­ur hakk­ara­hóp­ur álags­árás á ýms­ar vefsíður: vef Alþing­is, Hæsta­rétt­ar, Land­spít­al­ans, Krón­unn­ar og Dalabyggðar, svo dæmi séu nefnd.

Síðan hafa sex ís­lensk fyr­ir­tæki lent í gagnagíslatöku­árás á síðustu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert