Aðalmeðferð í Bátavogsmálinu hefst í dag

Aðalmeðferðin fer fram í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Aðalmeðferðin fer fram í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalmeðferð í Bátavogsmálinu hefst í dag og stendur yfir næstu þrjá daga í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hin 42 ára gamla Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir er ákærð fyrir að hafa orðið sambýlismanni sínum á sextugsaldri að bana á heimili þeirra í Bátavogi í Reykjavík þann 23. september.

Dagbjört er talin hafa beitt manninn margþættu ofbeldi í aðdraganda andlátsins, dagana 22. og 23. september, þar á meðal höggum og/eða spörkum og þrýstingi á andlit, klof, bol, handleggi og fótleggi auk þess að taka hann hálstaki og taka fast um, snúa upp á og beygja fingur hans. Maðurinn hlaut af margvíslega áverka á höfði og líkama.

Myndefni sem var tekið upp á síma parsins þessa tvo daga sýnir Dagbjörtu valda manninum ítrekuðum líkamsmeiðingum. Þá heyrðu ná­grann­ar ösk­ur í karl­manni sömu daga.

Að minnsta kosti 5 ára fangelsi

Við fyrirtöku málsins í síðasta mánuði kom fram að matsmönnum bæri ekki saman um það hversu mikinn þátt heilsufar hins látna hafi átt þátt í dauða hans. Þannig telur annar matsmaður í málinu það koma til greina að banvænt blóðsykursfall hafi átt þátt í dauða mannsins en hinn ekki.

RÚV fékk staðfest frá embætti héraðssaksóknara í lok maí að ákæruvaldið ætli ekki að fara fram á yfirmat dómskvadds réttarmeinafræðings vegna þessa.

Dagbjört er ákærð fyrir brot á 211 gr. hegningarlaga og verði hún sakfelld getur hún átt yfir höfði sér að minnsta kosti fimm ára fangelsi.

Þá er þess krafist að hún greiði samtals 16 milljónir í miskabætur til aðstandenda hins látna, auk tveggja milljóna króna í útfararkostnað.

Dagbjört neitaði sök þegar málið var þingfest í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka