Pétur Jökull Jónsson mun sæta gæsluvarðhaldi til 15. júlí vegna stóra-kókaínsmálsins svokallaða þrátt fyrir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í síðustu viku vísað máli héraðssaksóknara gegn Pétri Jökli frá dómi.
Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar, en Landsréttur úrskurðaði um gæsluvarðhaldið degi eftir að héraðsdómur vísaði ákæru á hendur honum frá dómi vegna óskýrleika í ákæru. Héraðssaksóknari kærði niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar þegar í stað.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði Pétur Jökull í gæsluvarðhald til 15. júlí þann 18. júní síðastliðin, eða tveimur dögum áður en dómurinn vísaði málinu frá dómi. Pétur Jökull skaut gæsluvarðhalds úrskurðinum til Landsréttar sem staðfesti úrskurðinn á föstudaginn í síðustu viku, eða degi eftir að héraðsdómur hafði vísað málinu frá dómi.
Úrskurðurinn var birtur í gær og byggir niðurstaða hans á því að héraðssaksóknari hafi skotið ákvörðun héraðsdóms, um að vísa málinu frá dómi, til Landsréttar þar sem málið bíður úrlausnar.
Pétur Jökull situr í gæsluvarðhaldi í tengslum við stóra kókaínmálið svokallaða þar sem þrír aðrir hafa þegar verið dæmdir fyrir sinn þátt. Hann var eftirlýstur hjá Interpol í tengslum við málið en var í febrúar handtekinn við komu til Íslands.