Allt að 500 íbúðir munu rísa í Grafarvogi á næstu árum ef tillögur sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnti í dag ganga eftir. Vonir standa til að úthlutun lóða geti hafist strax á næsta ári.
Einar Þorsteinsson boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem hann kynnti stöðu átaksverkefnis í húsnæðismálum sem sett var af stað þegar hann tók við sem borgarstjóri.
Settur var á laggirnar hópur til að leita allra leiða til að hraða húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík og var niðurstaðan að finna minni lóðir til að byggja á í úthverfum borgarinnar samhliða stærri uppbyggingarverkefnum í vesturhluta hennar.
Fyrsti áfangi þessarar uppbyggingar mun fara fram í Grafarvogi en síðari áfangar í Breiðholti, Grafarholti og Úlfarsárdal.
„Samhliða því að reyna að greiða úr ýmsum flækjum í tengslum við stærri uppbyggingarverkefni vestar í borginni [...] fórum við að rýna það hvernig við getum búið til lóðir hérna í úthverfunum sem styrkja innviði hverfanna og mæta óskum smærri uppbyggingaaðila, meðal stórra og lítilla verktaka sem vantar kannski eina lóð undir eitt hús, parhús, raðhús eða minni blokk,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
Hann segir að farið hafi verið ítarlega ofan í skipulag hverfanna sem um ræðir og að blettir hafi fundist hér og þar.
„Þetta eru allt að 500 íbúðir sem við sjáum fyrir okkur að geti byggst hér upp [í Grafarvogi],“ segir Einar. Hann tekur þó fram að það sé með fyrirvara um íbúasamráð og athugasemdir sem koma frá nærumhverfinu.
„Lykilatriðið er að byggja og hér gefst okkur tækifæri til að byggja með nýjum hætti sem við höfum ekki gert í nokkurn tíma í Reykjavík,“ segir Einar og útskýrir að hugmyndin sé að byggja húsnæði sem er í samræmi við hverfin, parhús, raðhús, einbýlishús og minni fjölbýli.
„Við vitum að Grafarvogsbúar myndu ekki vilja sjá Grafarvoginn gjörbreytast. Það verður byggt hér í þessu samfellda byggðarmynstri.“
Spurður hvort að einhver tímarammi liggi fyrir um hvenær þessi ubbygging muni hefjast segir Einar:
„Nú hlaupum við af stað og vonumst til þess að snemma á næsta ári getum við farið að úthluta lóðum hérna í Grafarvoginum úr þessu verkefni.“
Þegar kom að því að ákveða í hvaða hverfum ætti að ráðast í uppbyggingunna var litið til þess hvar nemendapláss væri í grunnskólum svo ekki þyrfti að byggja nýja skóla.
Spurður hvort ástæðan fyrir lausum plássum í umræddum skólum sé skortur á íbúðum í hverfunum segir Einar svo ekki vera:
„Ég held að aðal ástæðan er að börnin eldast og fara í menntaskóla en það er eftirspurn eftir nýju húsnæði í Grafarvogi eins og alls staðar.“
„Nú erum við að byggja fyrir alla tekjuhópa og mæta þannig óskum fólksins,“ segir Einar.
Þá bendir Einar á að íbúðum sem farið hafa í byggingu í borginni það sem af er ári hefur fjölgað.
„Svo má halda því til haga að á þessu ári hefur nýjum íbúðum sem hafa farið í byggingu fjölgað um tæplega 400 og fyrri helmingur þessa árs er að fara mun hraðar á stað en allt síðasta ár,“ segir Einar og bætir við:
„Við erum eiginlega búin að jafna heildar íbúðauppbyggingu í fyrra núna á fyrstu sex mánuðunum.“