Árangurinn „framar öllum vonum“

Mynd sýnir borholu þar sem vatn fannst. Jarðfræðingur hjá Isor …
Mynd sýnir borholu þar sem vatn fannst. Jarðfræðingur hjá Isor segir jarðhitaleit vera þolinmæðisverk, en að árangurinn hafi verið langt umfram væntingar. Ljósmynd/Aðsend

Eftir að hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræðinni fór í sundur undir hrauni í febrúar hófust boranir á Reykjanesskaga í leit að jarðhita til að tryggja heitt vatn til svæðisins. Leitin hefur skilað árangri langt umfram væntingar að sögn Auðar Öglu Ólafsdóttur, jarðfræðings hjá Isor, sem segir að verið sé að undirbúa vinnslu vatnsins sem fannst.  

„Það var unnið dag og nótt til að koma þessu af stað og þetta er árangur langt umfram það sem við gátum gert okkur vonir um,“ segir Auður í samtali við mbl.is. og bætir við að jarðhitaleit sé þolinmæðisverk og að oft sé verið að bora holur sem skili ekki árangri. 

Undirbúa vinnslu vatnsins

Þriðja holan er í borun, en Auður segir að hún sé kominn skammt á veg: „Þetta miðar eins og á að gera, en þetta tekur alltaf einhvern tíma.“ 

Búið er að bora tvær holur á Reykjanesinu í leit að jarðhita. Í fyrstu holunni fannst heitt vatn upp á 30 til 40 gráður: „Það er verið að skoða það hvernig best sé að nýta það,“ segir Auður. 

Spurð hvort það sé hægt að nýta það til dæmis til að koma í veg fyrir lagnir frjósi, segir Auður það vera einn möguleika.

Í annarri holunni fannst rúmlega 70 gráðu heitt vatn: „Það er verið að vinna í því núna að koma upp búnaði til þess að vinna það vatn.“ 

Svæðið þar sem borholurnar eru staðsettar.
Svæðið þar sem borholurnar eru staðsettar. Ljósmynd/Aðsend

Íhuga að bora fleiri holur 

Auður segir að farið hafi verið í boranirnar með það í huga að þetta yrði alltaf hugsað sem varabirgðir, en segir að fundurinn í holu tvo hafi farið fram úr öllum vonum.

„Af því að árangurinn af holu tvo varð framar öllum vonum, þá fara auðvitað af stað pælingar um hvort hægt sé að nýta þetta meira en bara sem varabirgðir, en við erum auðvitað stödd á algjöru frumstigi þeirra útfærslu,“ segir hún. Hún bætir við að í ljósi árangursins komi upp hugmyndir um að bora fleiri holur í nærumhverfi holu tvo. 

Auður segir almannavarnir setja upp viðmið um hve marga sekúndulítra af vatni þurfi til að mæta ákveðnum lágmarks kröfum byggðarlags, þannig að það geti starfað með eðlilegum hætti, þó svo að loka þyrfti sundlaugum, tekur hún sem dæmi.  

Hún segir að komið sé hálfa leið með því að mæta lágmarks kröfum Almannavarna sem nemur 150 sekúndulítrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert