Blöskraði þegar Dagbjört ætlaði að sýna dauða hundinn

Frá Bátavogi í Reykjavík þar sem andlátið átti sér stað.
Frá Bátavogi í Reykjavík þar sem andlátið átti sér stað. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður vildi óska þess að maður hefði ekkert farið á þennan stað,“ sagði vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í Bátavogsmálinu en hann og félagi hans fóru í íbúð Dagbjartar Guðrúnar Rúnarsdóttur eftir að maður, sem hún er grunuð um að hafa banað, var fluttur með sjúkrabíl látinn.

Vitnið lýsti aðkomu sinni að atburðum laugardagskvöldsins 23. september.

Hann þekkti Dagbjörtu og manninn ekki sjálfur, en hann og Dagbjört eiga sameiginlegan vin sem vitnið var með umrætt kvöld. Vinur vitnisins sagði að um væri að ræða gott fólk sem ætti það til að slást.

Dagbjört hafði hringt í sameiginlega vininn fyrr um kvöldið og sagt að hún og maðurinn hefðu verið að rífast. Síðar um kvöldið hringdi hún aftur og bað vininn um að koma í Bátavoginn.

Minntist ekki á að maðurinn væri látinn

Vinurinn og vitnið fóru þá í íbúðina í Bátavogi, eftir að maðurinn hefði verið fluttur með sjúkrabíl látinn.

Vitnið ítrekaði að hann þekkti hvorki manninn né konuna og hafði ekki komið áður í íbúðina. Hann sagði fyrir dómi að honum hefði ekki liðið vel á heimilinu. Dagbjört hefði þó verið kurteis og bauð félögunum upp á drykk sem þeir afþökkuðu.

Þá bauð hún þeim að sýna þeim hundinn hennar sem var dauður. Dagbjört geymdi hundinn í frystinum og sagði við félaganna að maðurinn hefði eitrað fyrir dýrinu. Vitnið sagði að Dagbjört hefði verið miður sín að hundurinn væri dauður.

Vitnið sagði fyrir dómi að honum hefði blöskraði þegar hún ætlaði að sýna honum dauðann hund úr frystinum.

Um tíu mínútum eftir komu þeirra kom lögregla á staðinn og bað þá félaga um að yfirgefa íbúðina. Í kjölfarið var Dagbjört handtekinn og hefur hún setið í gæsluvarðhaldi síðan.

Vitnið sagði að Dagbjört hefði ekki minnst sérstaklega á ástand mannsins sem hafði þá verið fluttur látinn með sjúkrabíl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka