Engar brunabjöllur hringdu

Útivist er í austurhluta Höfðatorgs.
Útivist er í austurhluta Höfðatorgs. mbl.is/Anton

Engar brunavarnabjöllur hringdu á skrifstofu ferðafélagsins Útivistar í Katrínartúni 4 á Höfðatorgi, þegar eldsvoði varð í veitingasal þar í dag.

Frá þessir segir Þórdís Sigurðardóttir, sem var að störfum á skrifstofunni þegar eldurinn kom upp, í samtali við blaðamann mbl.is.

Hún segir þó að brunavarnabjöllur hafi hringt frammi á gangi, sem nokkur fyrirtæki deila aðgengi að. Það hafi þó ekki verið það sem dreif þau út sem voru á skrifstofunni.

Miklar skemmdir urðu eftir eldsvoða á Höfðatorgi í dag.
Miklar skemmdir urðu eftir eldsvoða á Höfðatorgi í dag. mbl.is/Anton

Hoppuðu á gluggann

„Það komu tvær konur hoppandi á gluggann og bönkuðu og létu okkur vita að það væri kviknað í,“ segir Þórdís. Á sama tíma var farið að finnast lykt af reyknum inni á skrifstofu Útivistar.

„Við fórum bara út og það var reykmökkur yfir öllu hérna úti, slökkviliðið á leiðinni og allir komnir út sem eru í þessu húsi.“

Mörg hundruð manns hafi staðið úti og beðið eftir fregnum af slökkvistarfinu.

Loka vegna slæmra loftgæða

Ekki leið klukkustund þangað til að Þórdísi og samstarfsfélaga hennar var aftur hleypt inn í þann hluta húsnæðisins sem Útivist er til húsa.

Þórdís var búin að vera á skrifstofunni í um tvær klukkustundir eftir brunann þegar blaðamaður talaði við hana. Þá stóð til að fara að skella í lás þann daginn vegna slæmra loftgæða á skrifstofunni, en opnað verður aftur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert