Fá einn dag í viku til að sinna samfélagslöggæslu

Guðrún Hafsteinsdóttir kynnti aðgerðaráætlun sem felur í sér aukna samfélagslöggæslu …
Guðrún Hafsteinsdóttir kynnti aðgerðaráætlun sem felur í sér aukna samfélagslöggæslu vegna aukningar á ofbeldishneigð barna. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

„Ef við fáum meiri tíma og mann­skap í þetta starf tel ég þetta vera mjög já­kvætt,“ seg­ir Unn­ar Þór Bjarna­son, varðstjóri hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, spurður hvað hon­um finn­ist um það að auka eigi sam­fé­lagslög­gæslu í kjöl­far auk­inn­ar of­beld­is­hegðunar barna.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, og Guðrún Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra héldu blaðamanna­fund í gær þar sem þau kynntu fjór­tán aðgerðir sem snúa að for­vörn­um, inn­gripi og meðferð til að sporna og bregðast við auk­inni of­beld­is­hegðun barna.

Ein þeirra geng­ur út á að auka sam­fé­lagslög­gæslu. Hún fel­ur í sér lög­gæslu í nærsam­fé­lag­inu sem geng­ur út á að byggja upp traust og sam­tal við börn svo þau eigi bak­hjarl sem þau geti leitað til.

Unn­ar seg­ir í sam­tali við mbl.is mikið ákall hafa verið um að lög­reglu­menn sinni for­varn­ar­starfi oft­ar og á fleiri stöðum. Hann bæt­ir við að lög­regl­an nái þó ekki að sinna nema um broti af því sem óskað er eft­ir.

Einn dag­ur í viku til að sinna sam­fé­lagslög­gæslu

Unn­ar lýs­ir yfir mik­illi gleði yfir þess­um lið aðgerðaráætl­un­ar­inn­ar en veit ekki hvað þetta muni þýða fyr­ir hóp­inn sem sinn­ir þessu nú þegar. Þá veit hann ekki hvort þeir fái fleiri daga til að sinna þess­um lið eða hvort fjár­magnið í þenn­an mála­flokk muni nýt­ast í fleiri fundi eða annað.

Hann og fleiri sam­fé­lagslögg­ur fá bara einn dag í viku til að sinna störf­um af þess­um toga, en þá fara þeir til að mynda í skóla og halda for­varn­ar­fræðslu fyr­ir börn.

Auk­in sam­fé­lagslög­gæsla muni bera ár­ang­ur

„Það eru all­ir í grunn­inn sam­fé­lagslögg­ur, snýst bara um að hafa tím­ann til að geta farið í þess­ar heim­sókn­ir og verið með þessa fræðslu,“ seg­ir Unn­ar.

Þannig seg­ir hann þetta hafa byrjað upp­haf­lega, alla lög­reglu­menn langi til að geta verið með for­varn­ar­fræðslu en það sé lít­ill tími sem gefst til að sinna því.

Spurður hvort hann telji að auk­in sam­fé­lagslög­gæsla muni bera með sér sam­fé­lags­leg­an ár­ang­ur svar­ar Unn­ar ját­andi og bæt­ir við að hann sé 100 pró­sent á því.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert