Fíkniefni falin í pottum: Gæsluvarðhald framlengt

Lögreglan lagði m.a. hald á fíkinefni, reiðufé og skotvopn.
Lögreglan lagði m.a. hald á fíkinefni, reiðufé og skotvopn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæsluvarðhald yfir fjórum mönnum sem handteknir voru í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir lögreglu var framlengt fyrr í mánuðinum. Munu þeir því sæta gæsluvarðhaldi að óbreyttu fram í júlí. Málið fer nú til héraðssaksóknara.

Þetta segir Elín Agnes Krist­ín­ar­dótt­ir, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar, í sam­tali við mbl.is.

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu lagði hald á sam­tals rúm­lega sex kíló af kókaíni og am­feta­míni í um­fangs­miklu máli sem hef­ur verið til rann­sókn­ar hjá embætt­inu um nokk­urt skeið. Það snýr að skipu­lagðri brot­a­starf­semi, inn­flutn­ingi og sölu og dreif­ingu á fíkni­efn­um hér á landi, pen­ingaþvætti og vopna­laga­brot­um. Handtökurnar voru í apríl og rannsókn er lokið.

„Þetta mál er að fara núna frá okkur og yfir til héraðssaksóknara,“ segir Elín.

Að óbreyttu í gæsluvarðhaldi til 5. júlí 

Á dögunum 11. - 13. júní var framlengt gæsluvarðhald yfir fjórum mönnum þar sem þeir höfðu þá sætt gæsluvarðhaldi í 12 vikur, sem er hámarkstími gæsluvarðhalds. Munu þeir sæta gæsluvarðhaldi að óbreyttu þar til 5. júlí, að sögn Elínar.

Í sérstökum aðstæðum er heimilað að framlengja varðhald eins og var gert í þessu tilfelli.

Í aðgerðum lögreglu voru alls fimm látnir sæta gæsluvarðhaldi en einn af þeim var sendur í afplánum vegna eldri dóms. Því þurfti ekki að óska eftir framlengingu gæsluvarðhalds yfir honum.

Skotvopn haldlögð

Lög­regla lagði meðal ann­ars hald á fíkni­efni, lyf, stera og um 40 millj­ón­ir króna í reiðufé, auk nokk­urra peningatalningavéla. Þá hald­lagði lög­regla ýms­ar gerðir af skot­vopn­um og öðrum vopn­um, m.a. skamm­byssu búna hljóðdeyfi, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá lög­regl­unni.

Hún seg­ir enn frem­ur, að á þriðja tug manna hafi verið hand­tekn­ir í þágu rann­sókn­ar­inn­ar og fram­kvæmd­ar hafi verið rúm­lega þrjá­tíu leit­ir í um­dæm­inu í tengsl­um við hana.

Í dag hafa 18 einstaklingar stöðu sak­born­ings í mál­inu að sögn lög­reglu. Elín segir að um sé að ræða breiðan aldurshóp af báðum kynjum.

Fíkniefni falin í eldhúspottum

Flest­ir sak­born­ing­anna voru hand­tekn­ir í aðgerðum lög­reglu um miðjan apríl, en þá stóð hóp­ur­inn fyr­ir komu tveggja manna sem fluttu fíkni­efni til lands­ins með skemmti­ferðaskipi.

Elín segir að fíkniefnin hafi verið falin í eldhúspottum, en Vísir kvaðst fyrst hafa heimildir fyrir því.

DV kveðst hafa heimildir fyrir því að um sé að ræða „friðsamt og dannað fjölskyldufólk“. Elín kveðst lítið vilja tjá sig um fólkið sem um ræðir.

„Ég get ekki svarað fyrir það hvort að þetta sé friðsamt fjölskyldufólk,“ segir Elín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert