Landsréttur hefur fellt úr gildi ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa máli Péturs Jökuls Jónassonar frá dómi. Héraðsdómi ber því að taka málið til meðferðar.
Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is og bætir við að nú fari málið sína hefðbundnu leið. RÚV greindi fyrst frá.
Um er að ræða stóra kókaínmálið svokallaða þar sem þrír aðrir hafa þegar verið dæmdir fyrir sinn þátt. Pétur Jökull var eftirlýstur hjá Interpol í tengslum við málið en var í febrúar handtekinn við komu til Íslands.
Ákæran á hendur Pétri Jökli var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í upphafi mánaðarins. Það var síðan í síðustu viku sem málinu var vísað frá þar sem ekki þótti nægilega skýrt hver aðkoma Péturs Jökuls hefði verið í málinu.
Héraðssaksóknari kærði þennan úrskurð héraðsdóms til Landsréttar sem nú hefur tekið ákvörðun og falið Héraðsdómi Reykjavíkur að taka málið fyrir.
Kemur þessi ákvörðun í kjölfar úrskurðar Landsréttar frá því á föstudaginn þar sem Landsréttur staðfesti ákvörðun héraðsdóms, frá því áður en málinu var vísað frá dómnum, um að Pétur Jökull skyldi sæta gæsluvarðhaldi til 15. júlí.
Pétur er ákærður fyrir að hafa staðið að innflutningi á 99,25 kg af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í borginni Rotterdam í Hollandi.