Kviknaði líklega í lyftustokki

Betur fór en á horfðist þegar eldur kviknaði í glerskála á Höfðatorgi við Katrínartún. Líklegt þykir að eldsvoðin eigi upptök sín að rekja í lyftustokk sem ekki var í notkun. Starfsemi mun hefjast aftur í öllu húsinu í fyrramálið.

Eld­ur kom upp á Höfðatorgi að Katrín­ar­túni 2 í Reykja­vík fyrr í dag en búið er að ráða niðurlög­um hans. 

„Slökkvilið fer með rannsókn á eldsupptökum en við fyrstu sýn lítur þetta út fyrir að hafa kviknað út frá rafmagni í lyftustokki sem ekki var lyfta í,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima, í samtali við mbl.is.

Miklar skemmdir urðu eftir eldsvoða á Höfðatorgi í dag.
Miklar skemmdir urðu eftir eldsvoða á Höfðatorgi í dag. mbl.is/Anton

Lítið tjón í sjálfum turninum

Sívalningslaga lyftustokkurinn er staðsettur í glerskála sem er byggður við turninn.

„Það er ekki eiginlegt tjón vegna eldsvoðans inni í sjálfum turninum,“ bætir hann við. Aftur á móti umfangsmikið tjón í veitingasalnum í glerskálanum, þar sem veitingastaðurinn Intró er til húsa. Lyftustokkurinn er ekki hluti af veitingahúsinu.

„Þetta er 390 fermetra glerskáli, sem er mikið skemmdur og liggur utan að turninum. En það er ekki tjón inni í húsinu sjálfu annað en að þar fór vatn niður á afmarkaðan hluta tveggja kjallarahæða og geymslur, og það er unnið að því að hreinsa það núna,“ segir Halldór enn fremur.

Miklar skemmdir urðu eftir eldsvoða á Höfðatorgi í dag.
Miklar skemmdir urðu eftir eldsvoða á Höfðatorgi í dag. mbl.is/Anton

Vinnudagur á morgun

„Aðgerðirnar munu snúast að því að sjúga upp þetta vatn og hreingera sameignina. Síðan mun öll starfsemi hefjast í húsinu í fyrramálið,“ segir Halldór Benjamín.

Búið er að opna alla hæðir í húsinu og einhver fyrirtæki eru aftur komin til starfa, að sögn forstjórans.

„Það virðist engin lykt hafa borist inn á hæðir en það er verið að vinna að því að soga vatn sem hefur smitað að einhverju leyti inni í lyftugryfjum í háturni.“

Halldór tekur fram að Heimar vilji koma þökkum á framfæri til viðbragðsaðila sem hafi staðið sig af prýði.

„Fagmennska þeirra bjargaði því að meira tjón hefði hlotist.“

Eldur kom upp á Höfðatorgi í dag og var húsnæðið …
Eldur kom upp á Höfðatorgi í dag og var húsnæðið rýmt fyrir vikið. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert