„Myndi aldrei gera honum eitt eða neitt“

Bátavogur í Reykjavík.
Bátavogur í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hin 42 ára gamla Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir sagði ítrekað fyrir dómi í dag að vinur hennar á sextugsaldri, sem hún er ákærð fyrir að hafa orðið að bana, hafi verið „sídettandi“ áður en hann lést. Hún neitaði að hafa nokkurn tímann beitt hann ofbeldi og kvaðst muna lítið eftir aðdraganda andlátsins. 

Aðalmeðferð í Bátavogsmálinu hófst í morgun og stendur yfir næstu þrjá daga í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Dagbjört er talin hafa beitt manninn margþættu ofbeldi í aðdraganda andlátsins, dagana 22. og 23. september í fyrra, þar á meðal höggum og/eða spörkum og þrýstingi á andlit, klof, bol, handleggi og fótleggi, auk þess að taka hann hálstaki og taka fast um, snúa upp á og beygja fingur hans. Maðurinn hlaut af margvíslega áverka á höfði og líkama.

Fjölmiðlum var ekki heimilt að taka myndir af Dagbjörtu og var dómsal því lokað áður en hún gekk inn í hann. Dagbjört er með millisítt brúnt hár og var klædd í látlausa svarta peysu og buxur á þessum fyrsta degi aðalmeðferðarinnar.

Auk dómara sátu sérfróðir meðdómsmenn, réttarmeinafræðingur og geðlæknir, í dóminum.

Dagbjört hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í september. Hún bar fyrst skýrslu fyrir dómi en hún neitar sök.

Sækjendur í dómsal í morgun.
Sækjendur í dómsal í morgun. mbl.is/Urður

Vinir, ekki kærustupar

Dagbjört var fyrst spurð út í kynni sín við hinn látna. Hún sagði að þau hefðu verið vinir og hefðu þekkst í sjö ár. Dagbjört sagði að hann hefði ekki búið hjá henni, en dvalið mikið hjá henni.  

Dagbjört var með íbúðina í Bátavogi á leigu og borgaði hann ekki reikninga, heldur mat og annað slíkt. Hún sagði að auk þeirra tveggja hafi móðir hennar hafi verið með lykla að íbúðinni.

Víða í sjúkragögnum er vísað til hennar sem nánasta aðstandenda hans. Hún sagði að hann hefði lýst Dagbjörtu stundum sem kærustu hans. Hún vísaði því hins vegar á bug og sagði að þau hafi aldrei átt í kynferðislegu sambandi.  

Hún sagði að hann hefði verið dagdrykkjumaður og lýsti líkamlega ástandi hans sem slapplegu.

Dagbjört sagði að hún hefði sjálf ekki verið í neyslu á þessum tíma en drakk af og til áfengi.

Í skýrslutökunni lýsti Dagbjört oft orðljótum samskiptum þeirra á milli. Hún sagði að hann hefði hótaði henni oft út af alls konar. „Lét oft illa,“ sagði hún á einum tímapunkti.

Sjálf sagðist Dagbjört aldrei hafa hótað honum ofbeldi, né beitt því.

Heimtaði áfengi

Líkt og áður sagði sagðist Dagbjört ítrekað lítið muna eftir aðdraganda andlátsins. Þá vísaði hún oft á tíðum til lögregluskýrslna.

Hún sagði að þau hefðu verið heima að minnsta kosti í sólarhring fyrir laugardagskvöldið örlagaríka.

Kunningjar hennar komu í heimsókn á föstudeginum til þess að láta hana hafa kjöt.

Dagbjört sagði að hann hefði borðað lítið sem ekkert dagana áður en hann lést, en að hann hefði heimtað áfengi.

„Eitthvað skrýtinn“

Sækjandi spurði Dagbjörtu nokkrum sinnum hvort hún hefði beitt manninn ofbeldi. „Nei, hann var búinn að detta út um allt,“ sagði hún á einum tímapunkti. Hún sagði hann meðal annars hafa dottið beint á hausinn á klósettið eða baðherbergisflísar. Dagbjört sagði að hann hafi hlotið meðal annars áverka á andlitið eftir að hann datt.

Hún sagði að hann hefði kvartað mikið um að honum hafi verið kalt. Hún náði í peysu og teppi fyrir hann, og lokaði gluggum. Þá sagði hún að hann hefði beðið um vatn.

Dagbjört sagði að henni hafi fundist hann vera „eitthvað skrýtinn“ og fann að hann var með lítinn púls. Hún hringdi þá á Neyðarlínuna og byrjaði síðan hjartahnoð.

„Ég panikkaði,“ sagði hún og bætti við að hann hefði verið meðvitund þegar hún hringdi á Neyðarlínuna.

Eyddi gögnum úr síma

Þegar sækjandi spurði af hverju gögnum var eytt úr síma hennar sagði hún að hann hefði verið „fullur“ og hún hafði eytt úr honum allan laugardaginn, ekki sérstaklega áður en lögregla kom. Hún sagði við lögreglu að hún hafi eytt „leiðinlegum minningum“, en kaus að tjá sig ekki um það í dómsal.

Sækjandi spurði hvort hún myndi eftir einhverju öðru en að hann hefði verið sídettandi og svaraði Dagbjört þá: „Ekki svona í fljótu sko.“

Hvernig dó hundurinn?

Mikið var rætt um hund Dagbjartar í skýrslutökunni og möguleg tengsl dauða hundsins við andlát mannsins.

Hundurinn drapst nokkrum dögum áður en maðurinn dó. Dagbjört sagði hundurinn hafa verið 14 ára gamall og dó því úr elli. Hún sagði að maðurinn hafi ekki drepið hundinn.

„Ég var náttúrulega í áfalli bara,“ sagði Dagbjört á einum tímapunkti í skýrslutökunni og nefndi að ástæðan hafi verið dauði hundsins.

Hún sagði að það væri bull að einhver hefði byrlað hundinum eitri, það hefði verið eitthvað sem maðurinn hefði sagt. „Þetta voru hans orð, ekki mín.“

Hún sagði við lögreglu að hún væri sár út í manninn vegna dauða hundsins. Í dómsal sagðist Dagbjört kjósa að tjá sig ekki um það.

Myndbandsupptakan spiluð

Í gögnum málsins liggja fyrir myndbandsupptökur af símum þeirra beggja frá 22. og 23. september. Sækjandi spurði dómara hvort að þinghald yrði lokað þegar myndbandsupptaka yrði spiluð samkvæmt beiðni aðstandanda hins látna.

Dómari vísaði í að þinghöld skulu háð í heyrandi hljóði og því yrði því ekki lokað. Hann ítrekaði þó fyrir fjölmiðlum að um viðkvæmt mál væri að ræða og því skyldi vanda umfjöllun.

Myndbandupptakan er samtals tæplega tveir og hálfur tími að lengd. Sækjandi spilaði nokkra búta úr upptökunni fyrir dómi. Orðaskil eru oft á tíðum óskýr en sársaukavein mannsins heyrðust og ágerðust þau er leið á. Hún sagði honum ítrekað að fara sofa og hætta að væla. Hann sakar hana um ofbeldi á upptökunni en í dómsal sagði hún hann hafa verið að bulla. Á upptökunni heyrist hún meðal annars segja að maðurinn hefði drepið hundinn hennar.

„Af hverju ertu að gera þetta?“

Ekkert sást á fyrsta hluta upptökunnar sem var spiluð. Þar heyrist í Dagbjört tala í símann um hundinn.

„Hann er búinn að sýna sitt rétta eðli,“ heyrist hún segja. Spurð út í þetta í dómsal segist hún ekki muna eftir þessu. Þá heyrðust stunur í honum og Dagbjört segir honum að vakna og hætta þessu væli. „Hann er algjör aumingi,“ heyrðist hún segja í upptökunni.

„Af hverju ertu að gera þetta?“ heyrðist maðurinn segja drafandi röddu.

Hann kallar hana helvíti og segir hana vera ógeðslega, síðan heyrast hvellir. Þá heyrist umgangur og hún segir honum að fara sofa og kallar hann fífl.

Spurð út í atriði upptökunnar vísaði Dagbjört í lögregluskýrslu. 

„Hef ekkert að gera en að vera leiðinleg við þig“

Á upptökunni sagðist hún vera hella áfengi í slímhúð hans.

Sækjandi spurði hvort hún hafi hellt áfengi í augun hans. Dagbjört sagðist ekki muna eftir því og neitaði að tjá sig. „Nei, ég er bara að gefa þér sopa svona,“ heyrðist hún segja á upptökunni.

Dagbjört sagði hann vera aumingja sem ætti ekkert gott skilið.  Hann biður hana um að láta sig í friði.

„Hundurinn minn er dáinn ég hef ekkert að gera en að vera leiðinleg við þig,“ segir hún á upptökunni.

„Af hverju ertu að drepa hundinn minn?“ spyr hún og hann svarar: „Ég drap ekki hundinn þinn.“ Dagbjört sagði hann ekki einu sinni skammast sín.

Sársaukavein heyrist frá honum á einum tímapunkti og hún segir honum að hætta að öskra.

Ofskynjanir

Þau kalla hvort annað meðal annars fífl, ógeð og aumingja á upptökunni. Sækjandi spurði af hverju hún talaði svona illa um hann og svaraði Dagbjört að hann talaði líka svona um hana.  

Hún var nokkrum sinnum spurð út í sársaukaveinin sem heyrðust í honum og svaraði hún að hann hefði verið að ímynda sér hluti. Hún sagði að um ofskynjanir vegna áfengisdrykkju væri að ræða og að hann hafi verið sídrekkandi.

Rifjaðist eitthvað aðeins upp

Dagbjört sagði að hún hafi þurft að verjast ofbeldi hans á upptökunni þegar hann biður hana um að vera ekki að sparka í sig.

Þá nefndi hún að hann hefði sparkað hurð í andlitið á henni. „Það var ekkert sérstaklega þægilegt, sko,“ sagði hún fyrir dómi.

Bæði sækjandi og dómari spurðu nokkrum sinnum hvort að atburðirnir rifjuðust upp fyrir henni er hún hlustaði á upptökuna í dómsal.

„Já, hann var að sparka í mig og og henti einhverju niður og í mig ... Vinir og fjölskylda voru alveg hneykslaðir á því að ég talaði við hann yfirhöfuð,“ sagði hún. Síðar svaraði hún: „Já, eitthvað aðeins“ við sömu spurningu.

Þá spurði dómari hvað skýri það að hún muni ekki. Dagbjört svaraði að kannski hefði verið um minnisgloppur að ræða og að hún hefði verið í sjokki.

„Ekkert sem ég gerði“

Er leið á upptökuna varð hún átakanlegri. Það heyrðust högg, spörk og hann öskrar vegna sársauka ítrekað.

„Það er enginn friður í þinni sál,“ heyrist hún segja og kallar hann dýraníðing og morðingja. Hún segir honum að hætta að ráðast á sig.

Er ein klukkustund og 30 mínútur eru liðnar af upptökunni sést hann liggja upp við rúm með lokuð augun og hún beindi myndavélinni á hann. Nokkrir marblettir sjást á höndum hans og fótum.

Hann kveinkaði sér mikið. Spurð hvernig hún skýrir það sagðist hún ekki geta svarað því. Dómari ítrekaði þá fyrir henni að hún skildi skýra satt og rétt frá.

„Allavega ekkert sem ég gerði,“ sagði hún. Hún sagðist hafa reynt að halda í höndina á honum og að hún hafi ekki ráðist á hann.

Á upptökunni heyrist hún spyrja hvort hann vildi ekki nauðga henni núna.

„Bara ógeðslegt tal,“ og „bara eitthvað bull“, sagði hún í dómsal um þau ummæli.

Sést beygja fingur mannsins

Á upptökunni heyrist hún tala um að klípa í „rækjuna“ á honum. Sækjandi spurði hvað hún ætti við með því og spurði hvort að áverkar sem fundust á kynfærum hans væru eftir hana. Hún neitaði því.

Á lokamínútum upptökunnar sást maðurinn liggja upp í rúmi á nærbuxunum einum.

Dagbjört sést beygja fingur hans á annarri hönd aftur. Í ákæru kemur fram að hægri löngutöng hans hafi verið mölbrotin.

Á meðan hún beygði fingurna spurði hún út í dauða hundsins. „Þetta er svo vont, maður,“ heyrðist hann segja og veina.

Blóðslettur sjást á kodda við hlið hans og er ástand hans er augljóslegra orðið mun verra. Dagbjört vildi ekki tjá sig um hvað væri í gangi á þessum tímapunkti og vísaði í skýrslu lögreglu.

Gæti hafa slegið hann utanundir

Dómari nefndi að hann hafi æpt mikið á upptökunni og spurði Dagbjörtu hvort henni finnist að það hafi greinilega verið að slá manninn. „Mögulega, ég bara man það ekki ... verja mig frá honum,“ svaraði hún og sagði aftur að maðurinn hefði verið að ímynda sér.

Hún sagði að það gæti alveg verið að hún hafi slegið hann einu sinni utanundir.

Hún sagðist hafa gefið honum parkódín af því hann kvartaði yfir að honum væri illt, og einnig áfengi.

„Þótti mjög vænt um hann“

„Myndi aldrei gera honum eitt eða neitt,“ svaraði hún spurð af dómara hvort hún vildi segja eitthvað um málið.

„Hann var alltaf á hausnum,“ sagði hún og bætti við að hann hefði meðal annars áður eyðilagt þrjú sjónvörp.

Spurð hvaða tilfinningar hún hefði til hans svaraði Dagbjört: „Þótti mjög vænt um hann.“

Hún sagði að henni finnist málið mjög leitt og nefndi að hann hefði alltaf verið með henni og fjölskyldu hennar á jólunum.

Negldi síma í ennið á henni

Geðlæknir spurði hvort hún hafi verið að hugsa um hann og hún sagðist hafa verið mjög góð við hann, meðal annars keypt fyrir hann mat og áfengi og farið með hann í göngutúra. Hann fór þó einnig út sjálfur og sótti sér sjálfur áfengi.

Dagbjört sagðist helst ekki hafa viljað vita af honum einum þar sem líkamlegri heilsu hans hefði hrakað mikið síðustu mánuði.

Hún sagði að hann hefði tekið geðrofsköst þar sem hann kastaði hlutum og meðal annars hafi hann einu sinni „neglt“ símanum í ennið á henni.

Spurð af hverju hún leyfði honum að vera hjá henni ef hann kom svo illa fram við hana svaraði hún: „Ég stundum spyr mig sjálfa að því.“

Æskuvinur lýsti henni sem ofbeldisfyllri

Dagbjört sagðist ekki glíma við andlega erfiðleika en að hún væri greind með ADHD og svefnröskun. Hún tekur ADHD–lyf að staðaaldri og því fannst amfetamín í blóði hennar. Þá fannst örlítið magn áfengis og sagðist hún hafa fengið sér örlítið að drekka er maðurinn lést.

Í skýrslu geðlæknis sem hún var hjá fyrir atvikið lýsti æskuvinur henni sem ofbeldisfyllri í æsku og væri oft á tímum pirruð.

Hún sagði það vera túlkun æskuvinarins og að hún mundi ekki hverju hann var að lýsa.

Dagbjört sagðist hafa verið einkabarn og pínu frek, en ekki ofbeldisfull.

Hún var spurð hvort hún væri oft pirruð og svaraði Dagbjört þá: „Nei. Ætli það vaxi ekki af manni svona frekjuköst.“

Dagbjört yfirgaf dómsal eftir að skýrslutöku yfir henni lauk.

Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn flytja skýrslur fyrir dómi í dag. Á morgun munu síðan réttarmeinafræðingar gefa skýrslur og aðalmeðferð í Bátavogsmálinu lýkur á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert