Sagði manninn hafa drukkið sama eitraða vatn og hundurinn

Frá Bátavogi í Reykjavík.
Frá Bátavogi í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglumenn sem komu á vettvang í Bátavogi 23. september báru vitni eftir Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi í dag. Nokkrir nefndu að Dagbjört hefði haldið að vinur hennar, sem hún er ákærð fyrir að hafa orðið að bana, hefði drukkið sama eitraða vatn og hundur hennar hefði drukkið.

Alls báru fimm lögreglumenn vitni fyrir héraðsdómi fyrir hádegishlé.  

Í skýrslutöku yfir Dagbjörtu var ítrekað minnst á hundinn sem hún sagði fyrir dómi hafa drepist úr elli. Á upptöku heyrðist hún hins vegar saka manninn um að hafa drepið hundinn.

Er lögreglumenn mættu á vettvang sögðu þeir að Dagbjört hefði tekið á móti þeim. Framburður hennar var óskýr, hún talaði mikið um hundinn og var greinilega sveitt eftir að hafa reynt endurlífgun.

Dagbjört á að hafa sagt að hún teldi að hundurinn hefði drukkið vatn sem búið var að blanda eitur út í. Maðurinn hefði síðan drukkið sama vatn. Hún setti síðan hræið af hundinum í frystinn til þess að verja sönnunargagnið.

Lögreglumennirnir voru spurðir hvort Dagbjört hefði minnst á manninn á vettvangi og sögðust þeir ekki muna sérstaklega eftir því. Hún hefði þó sagt að hann hafi alltaf verið að detta. Dagbjört lýsti því fyrir dómi að hann hefði verið „sídettandi“.

Lögreglumennirnir töluðu um að lýsing í íbúðinni hafi verið léleg og að hún hefði verið skítug. Þá voru ummerki um drykkju. Ekki voru þó ummerki um átök.

Fleiri lögreglumenn og sjúkraflutningamenn flytja skýrslur fyrir dómi í dag. Á morgun munu síðan réttarmeinafræðingar gefa skýrslur og aðalmeðferð í Bátavogsmálinu lýkur á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert