Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, stefnir á þing í næstu alþingiskosningum.
Þetta kom fram í síðasta þætti Rauða borðsins á Samstöðinni.
„Jú, ég hef hlustað á félaga mína og mér heyrist þetta vera viljinn þannig ég er opin fyrir því,“ sagði Sanna spurð hvort það sé ekki rétt hvort hún stefni á að komast á þing í næstu kosningum.
Sem stendur er Sósíalistaflokkurinn ekki með neinn mann á þingi en flokkurinn hlaut 4,1 prósent atvæða í síðustu alþingiskosningum.
Spurð hverjum hún myndi helst vilja vinna með á þinginu sagði Sanna það vera þeim flokkum „sem eru til vinstri og eru það í alvörunni“. Hún gat hins vegar ekki svarað hvaða flokkar það eru.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var einnig gestur í þættinum en spurð hvernig henni litist á að fá Sósíalista inn á þing sem níunda flokkinn sagði Inga: „Það væri bara gaman, […] ég myndi auðvitað gleðjast mjög yfir að sjá Sönnu þarna inn, hún á fullt erindi þangað.“