Selfyssingar fundu fyrir jarðskjálftum

Selfyssingar fundu fyrir jarðskjálftum í morgun.
Selfyssingar fundu fyrir jarðskjálftum í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúar á Selfossi urðu margir hverjir varir við jarðskjálfta í morgun en tveir skjálftar að stærðum 1,9 og 1,5 mældust rétt norður af Selfossi á níunda tímanum.

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is upptök skjálftanna hafi verið við Ingólfsfjall.

„Alla jafna finnast skjálftar af þessari stærð ekki í byggð en þeir voru nálægt Selfossi og grunnir og við höfum fengið margar tilkynningar að Selfyssingar hafi fundið fyrir þeim,“ segir Jóhanna Malen.

Jóhanna segir að þetta sé á Suðurlands-skjálftasvæðinu en skjálftarnir í morgun hafi ekki verið á einni af stóru jarðskjálftasprungunum. Hún segir að nokkrir smáskjálftar hafi fylgt, bæði fyrir- og eftirskjálftar en ekki sé um neina hrinu að ræða.

Allt er með kyrrum kjörum á Reykjanesskaganum að sögn Jóhönnu en eldgosinu við Sundhnúkagíga sem hófst 29. maí lauk um síðustu helgi.

„Það er allt nokkuð stöðugt á svæðinu. Það er smá landris við Svartsengi en við erum ekki að mæla neina skjálfta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert