Tugir kvenna stunda vændi á Íslandi

Á bilinu 50-70 konur stunda vændi á Íslandi.
Á bilinu 50-70 konur stunda vændi á Íslandi. Ljósmynd/Colourbox

Einn maður á nuddstofu í Reykjavík var handtekinn í byrjun mánaðar grunaður um að hafa staðið að baki mansals og vændi. Lögreglan telur að tugir kvenna stundi vændi á Íslandi og fjölgar í hópi þeirra frá Kína. 

Þetta segir Gunnar Axel Davíðsson, lögreglufulltrúi í deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem rannsakar mansal og vændi, í samtali við mbl.is.

Lög­regla fór í aðgerðir á nærri 40 stöðum þar sem betl, vændi og önn­ur brot­a­starf­semi er tal­in hafa þrif­ist vik­una 3-9. júní.

Manninum sleppt úr haldi

Eini maðurinn sem var handtekinn vegna aðgerðanna var maðurinn á nuddstofunni. Gunnar gat lítið tjáð sig um það mál að öðru leyti en að eitt fórnarlamb væri í því máli og að rannsókn stæði yfir. Manninum var sleppt úr haldi að lokinni skýrslutöku.

Í kjölfar aðgerða lögreglu í byrjun mánaðar var 32 meint­um þolend­um boðin aðstoð en ein­ung­is einn þeirra þáði hana.

„Það er ekki ólöglegt fyrir þær [að selja vændi] en það er ólöglegt að kaupa það [vændi]. Þær flestallar þáðu enga aðstoð og segjast vera að gera þetta af fúsum og frjálsum vilja, sem við kaupum ekki alveg. En það þarf lengri rannsókn til að komast nánar að því hver er að baki þessum vændiskonum,“ segir Gunnar.

Fjölgar í hópi kínverskra vændiskvenna

Hann segir að á öllum stundum séu á bilinu 50-70 vændiskonur á Ísland og auglýsa þær sig á vefsíðum á netinu.

Hann segir vekja athygli að það fjölgi í hópi kínverskra kvenna sem stunda vændi á Íslandi. Vændiskonurnar eru almennt ekki með íslenskan ríkisborgararétt og koma til landsins sem ferðamenn.

„Svo leigja þær hótelherbergi eða Airbnb,“ segir Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert