Aðstæður krefjandi vegna mikils reyks

Slökkvistarf gekk vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður.
Slökkvistarf gekk vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var tiltölulega fljótt að slökkva eldinn sem upp kom á Höfðatorgi í gær. Aðstæður voru þó krefjandi vegna mikils reyks. 

Þetta segir Hlynur Höskuldsson, deild­ar­stjóri á aðgerðasviði hjá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is.

Eldur kom upp á Höfðatorgi í Katrín­ar­túni 2 í Reykja­vík skömmu fyrir hádegi í gær. Slökkviliðið lauk sínu starfi á vettvangi í gær og er málið nú til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Erfitt að meta aðstæður vegna mikils reyks

Mikill reykur var í húsinu þegar slökkviliðið kom á vettvang og því reyndist erfitt að greina hversu mikill eldurinn væri, hvort hann væri staðbundinn eða farinn að dreifa sér.

Hlynur segir aðstæður sem þessar oft erfiðar til að byrja með, en útskýrir að slökkviliðið reyni að sækja upplýsingar um aðstæður og upptök til eigenda húsnæðisins hverju sinni. 

„Þetta er ekki eins auðvelt og þetta lítur út fyrir á mynd. Þegar við höfum allar þessar myndir eftir á þá sjáum við hvað þetta var nákvæmlega sem var að brenna, en þegar við komum á vettvang þá er þetta ekkert svo skýrt því reykurinn felur þetta allt saman.“ 

Aðspurður kveðst hann þó ekki vera að kalla eftir því að almenningur flykkist að slökkviliðsmönnum til að sýna þeim myndbönd af vettvangi, slökkviliðið fylgi sínum leiðum til að kalla eftir þeim upplýsingum sem það þarf. 

Mikinn reyk lagði frá húsnæðinu þegar slökkvilið bar að garði, …
Mikinn reyk lagði frá húsnæðinu þegar slökkvilið bar að garði, en skömmu áður mátti betur sjá hvað það var sem var að brenna.

Húsið vel hannað 

Hlynur segir fljótlega hafa komið í ljós að eldurinn væri staðbundinn á ákveðnu svæði. Um töluverðan eld hafi verið að ræða, en þar sem eldurinn var staðbundinn þá voru slökkviliðsmenn aldrei smeykir um að hann myndi dreifa sér í nálæg hús útskýrir Hlynur.

Þegar búið var að ráða niðurlögum eldsins gat slökkviliðið því gengið úr skugga um að enginn reykur væri í nálægum húsum og í kjölfarið hleypt fólki aftur þangað inn.

„Húsið er líka vel hannað hvað þetta varðar,“ segir Hlynur og hrósar brunahólfun hússins.

Töluverðar skemmdir urðu á veitingarstaðnum Intro. Eldsupptökin eru þó ekki …
Töluverðar skemmdir urðu á veitingarstaðnum Intro. Eldsupptökin eru þó ekki sögð tengjast starfsemi staðarins. mbl.is/Anton
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert