Braut gegn andlega fötluðum konum og dreng

Embætti héraðssaksóknara gefur út ákæru í málinu.
Embætti héraðssaksóknara gefur út ákæru í málinu. mbl.is/Hjörtur

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn konu, syni konunnar og annarri konu, en öll glíma þau við andlega fötlun. Þá lét hann einnig aðra karlmenn brjóta gegn móðurinni. Brotin áttu sér stað á árunum 2016 til 2020 á heimili mæðginanna, en maðurinn var yfirmaður móðurinnar í verslun þar sem hún starfaði. Var sonurinn undir lögaldri þegar brotin áttu sér stað.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni, en það er embætti héraðssaksóknara sem gefur út ákæruna.

Lét konuna hafa kynmök við aðra menn

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa nokkrum sinnum í hverjum mánuði á árunum 2016 til 2020 haft samræði og önnur kynferðismök við konuna og látið aðra menn hafa kynferðismök við hana.

„Ákærði notfærði sér að A gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar og beitti hana ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburði sína og aðstöðumun gagnvart henni og traust hennar til ákærða vegna stöðu hans gagnvart henni, meðal annars sem yfirmanns hennar,“ segir í ákærunni.

Er í ákærunni meðal annars lýst hvernig hann hafi í átta skipti boðið öðrum karlmönnum á heimili konunnar og látið hana hafa þar munnmörk og/eða samræði við mennina og sig. Eru fjórir mennirnir þekktir, en um þann fimmta er aðeins vitað út frá notendanafni hans á ónefndri síðu.

Lét soninn fylgjast með því þegar hann braut gegn móðurinni

Þá er maðurinn ákærður fyrir kynferðisbrot á árinu 2019 eða 2020, með því að hafa látið son konunnar vera viðstaddan þegar hann lét konuna hafa við sig samræði og munnmök. Gerði hann það yfir því yfirskini að sonurinn ætti að læra að stunda kynlíf að því er segir í ákærunni. Nýtti hann sér þar að sonurinn gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar og er maðurinn sakaður um að hafa nýtt yfirburði sína og aðstöðumun.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa áreitt soninn kynferðislega með að spyrja hann ítrekað um kynlíf og gefið honum leiðbeiningar um hvernig ætti að stunda kynlíf, en ummælin eru sögð til þess fallin að særa blygðunarsemi sonarins.

Að lokum er maðurinn ákærður fyrir að brjóta gegn syninum og annarri konu með því að hafa gengið inn í lokað herbergi þar sem þau stunduðu kynlíf. Er maðurinn sagður hafa fært hönd sína mjög nálægt kynfærum konunnar og gefið syninum leiðbeiningar um hvernig hann ætti að veita munnmök. Er sú kona jafnframt með andlega fötlun sem maðurinn er sagður hafa notfært sér.

Allt að 16 ára refsirammi

Í málinu er maðurinn ákærður fyrir nauðgun, en fyrir slíkt brot liggur lágmark eins árs fangelsi og upp í 16 ára fangelsi. Er hann jafnframt ákærður fyrir brot gegn lagagrein þar sem vísað er sérstaklega til þess að það teljist einnig vera nauðgun ef menn notfæri sér aðstæður þeirra sem brotið er gegn. Er þar sérstaklega tekið sem dæmi ef um andlega fötlun er að ræða.

Einnig eru brot hans talin varða lagagrein sem snertir á því ef menn misnota freklega þá aðstöðu sína þegar þeir sem brotið er gegn eru fjárhagslega háðir eða í trúnaðarsambandi við gerandann. Er þar vísað til þess að hann hafi verið yfirmaður móðurinnar. Að lokum er hann ákærður fyrir kynferðislega áreitni gagnvart syninum og barnaverndarbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert