Braut ítrekað á barnungri dóttur sambýliskonunnar

Landsréttur dæmdi manninn í fangelsi í þrjú ár og sex …
Landsréttur dæmdi manninn í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmt karlmann í þriggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn dóttur sambýliskonu sinnar. 

Héraðsdómur sýknaði manninn af kröfum ákæruvaldsins og vísaði einkaréttarkröfu brotaþola frá dómi. 

Hefur Landsréttur ómerkt dóm héraðsdóms er varðar einkaréttarkröfu stúlkunnar og verður þeim hluta málsins vísað aftur í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. 

Er manninum sömuleiðis gert að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði eins og hann var þar ákveðinn sem og áfrýjunarkostnað málsins, eða tæpar 7,5 milljónir króna. 

Taldi brot hafa átt sér stað í yfir 100 skipti

Var maðurinn ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar á árunum 2016 til 2019 með því að hafa í ótilgreindan fjölda skipta með ólögmætri nauðung haft við hana önnur kynferðismök en samræði. Hann hafi einnig sýnt stúlkunni klámmyndir og í eitt sinn tekið ósæmilega mynd af henni. 

Stúlkan, sem var á barnsaldri er brotin áttu sér stað, telur að maðurinn hafi brotið á sér í yfir 100 skipti á heimili þeirra oft þegar þau hafi verið að horfa á mynd saman upp í rúmi en stundum í stofunni.

Móðirin stundum heima 

Segir hún móður sína yfirleitt ekki hafa verið heima er brotin áttu sér stað, en að stundum hafi hún verið það og maðurinn hafi þá yfirleitt lokað hurðinni og hún verið frammi. Sagði móðirin fyrir héraðsdómi að frásögn dótturinnar hefði komið sér verulega á óvart og að hún hefði ekki orðið vör við neitt á sínum tíma. 

Eftir mikla upprifjun muni hún þó eftir einu atviki þar sem hún hefði gengið inn á ákærða og brotaþola þar sem þau voru með lokað að sér inni í herbergi og sagði móðirin þeim virst bregða mjög. Styðst það við frásögn stúlkunnar sem minntist einnig atviksins.

Haft alvarlegar afleiðinga fyrir heilsu stúlkunnar

Segir bæði í úrskurði Landsréttar og héraðsdómstóla að framburður stúlkunnar hafi frá upphafi verið skýr, stöðugur og án mótsagna um þau atriði sem máli skipta við úrlausn málsins. Þá hafi hún verið einlæg í frásögn sinni, ýkjulaus og sannfærandi og að framburður hennar eigi stoð í framburði móður hennar og vinkvenna. 

Er framburður ákærða aftur á móti talinn hafa takmarkaða stoð í framburðum vitna og gögnum málsins. 

Við ákvörðun refsingar mannsins fyrir Landsrétti var annars vegar litið til þess að hann hefði ekki áður hlotið refsidóm auk þess sem dráttur varð á rannsókn málsins sem honum yrði ekki kennt um.

Hins vegar var litið til þess að hann hefði nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni, sem var á barnsaldri, og sem stjúpfaðir hennar misnotað traust og trúnað um þriggja ára skeið. Gögn málsins bæru með sér að háttsemi mannsins hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu stúlkunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert