„Ekki stendur til að setja á laggirnar sérstakt unglingafangelsi“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir úrræði barna sem sýna ofbeldishegðun fara …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir úrræði barna sem sýna ofbeldishegðun fara eftir hverju barni fyrir sig. mbl.is/Eyþór

„Ekki stendur til að setja á laggirnar sérstakt unglingafangelsi,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is, spurð hvort úrræði barna sem sýna ofbeldishegðun yrði í líkingum við fangelsi.

Hún segir að áfram verði unnið að stofnun nýs meðferðarheimilis Barna- og fjölskyldustofu á höfuðborgarsvæðinu til að mæta betur þörfum barna og ungmenna sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma.

Eins og fram hefur komið kynnti Guðrúnu nýverið, ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barna­málaráðherra, aðgerðir stjórnvalda til að sporna við aukinni ofbeldishegðun barna.

Ólíkar birtingarmyndir kalla á ólíkar lausnir

„Lögð er áhersla á að mæta þjónustuþörfum hvers og eins barns með viðeigandi hætti og grípa snemma inn í afbrota- og ofbeldishegðun þeirra því þannig er hægt að koma í veg fyrir að grípa þurfi til þyngri úrræða síðar,“ segir Guðrún spurð hvort sé komin einhver mynd af því hvernig úrræði yrðu líkleg til árangurs fyrir þau börn sem sýna ofbeldishegðun.

Aðgerðir stjórnvalda til að sporna við aukinni ofbeldishegðun barna munu snúa að forvörnum, inngripi og meðferð mála. Séu birtingarmyndir ofbeldis ólíkar og kalla því á mismunandi lausnir. Þá muni aðgerðirnar miða að því að styðja betur við velferðarþjónustu og þau meðferðarúrræði sem heyra undir Barna- og fjölskyldustofu.

Eitt úrræði henti ekki öllum

„Aðgerðirnar gera ekki ráð fyrir að eitt úrræði henti öllum og því snúa aðgerðirnar að forvörnum, inngripi og meðferð mála þar sem mæta þarf þörfum hvers barns. Áherslan er á að virkja þjónustuaðila þvert á kerfi sem hafa aðkomu að málefnum barna,“ svarar Guðrún, spurð hvort hún telji það vera áskorun að finna úrræði fyrir ólíkan hóp.

Hún segir að einnig þurfi að endurskoða hvernig unnið sé þverfaglega með þeim sem koma að málefnum barna þegar börn gerast brotleg, hvort sem þau eru sakhæf eða ósakhæf.

Guðrún segir það vera faglegt mat hvers sinnis sem ráði því hvaða þjónusta eða úrræði henti hverju og einu barni, spurð hvar mörkin liggi varðandi það hvort barn verði send í úrræði af þessum toga eða Stuðla sem dæmi.

Framkvæmd barnaverndarstarfs á Íslandi hefur tekið breytingum

Spurð hvernig ríkið muni tryggja að þeir sem sjái um úrræðin muni ekki misnota vald sitt líkt og dæmi eru um þegar kemur að úrræðum unglinga úr fortíðinni, segir Guðrún að tímarnir hafi breyst:

„Öll framkvæmd barnaverndarstarfs á Íslandi hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og misserum auk þess að stigin hafa verið stór og mikilvæg skref til að efla þjónustu, tryggja samfellu og samþætta meðferð fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sinnir ytra eftirliti með meðferðarheimilum og hefur eftirlitið verið aðskilið frá framkvæmd velferðarþjónustu sem er afar mikilvægt skref til að efla öryggi og gæði þjónustunnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert