Einu viðurlög þess að hjóla í gegnum Hvalfjarðargöngin er skömmin sem fylgir því að hjóla upp úr göngunum í fylgd lögreglumanna.
Þetta segir Svanur Þorvaldsson, forstöðumaður vöktunar og upplýsinga hjá Vegagerðinni, aðspurður í kjölfar þess að loka þurfti göngunum í þrígang á föstudaginn vegna raðar atburða í göngunum.
„Viðurlögin eru eiginlega skömmin. Því þú hefur Tesluna á blikkandi bláu [lögreglubíl] keyrandi á eftir þér á meðan þú hjólar upp úr göngunum. Það er óhætt að segja það að hjólreiðarmanninum líður ekkert sérstaklega vel þegar hann er kominn upp úr göngunum eftir að hafa haft lögreglubílinn fyrir aftan sig,“ segir Svanur og bætir við:
„En almenn sekt eða slíkt, það eru engin viðurlög annað en það að við gerum okkar besta til að tryggja öryggi hjólreiðarmannsins með því að loka göngunum.
Eins og fram kemur hér á undan var Hvalfjarðargöngum lokað í þrígang á föstudag vegna röð atburða. Var þeim fyrst lokað skömmu eftir hádegi vegna hjólreiðarmanns sem átti þar leið um. Um hálftíma síðar var þeim síðan lokað á ný vegna tveggja bíla áreksturs og voru þau ekki opnuð aftur fyrr en um klukkan þrjú. Það var síðan um hálftíma síðar sem göngunum var lokað í þriðja sinn vegna bilaðs bíls sem þurfti að daga upp úr göngunum.
Svanur útskýrir að vegagerðin sé með sólahringsvöktun í göngunum í vaktstöð sem bæði er staðsett í Garðabæ og á Ísafirði. Þessi vöktun geri Vegagerðinni kleift að bregðast við með skjótum hætti þegar upp koma atvik sem eru til þess að loka þarf göngunum, en vaktstöðin fær tilkynningarnar úr fjölmörgum myndavélum ganganna.
„Það sem gerist í göngunum sjálfum er að við erum með atvikamyndavélakerfi, sem er búið ákveðinni gervigreind, sem gerir það að verkum að þegar hjólamaður fer inn í göngin þá nemur kerfið það að þarna er hjólamaður á ferð,“ útskýrir Svanur inntur eftir upplýsingum um hvernig kerfið bregðist við þegar hjólreiðarmaður gerir sér ferð um göngin.
Svanur segir þessar myndavélar bæði við gangamunnana og annars staðar í göngunum og því geti vaktstöðin bæði séð þegar vegfarendur koma að göngunum og þegar vegfarendur fara um göngin. Þrátt fyrir það sé raunveruleikinn sá að þegar hjólreiðarmaður fer inn í göngin, og niður brekkuna, þá sé hann á fleygiferð.
„Sem þýðir að kerfið nemur í raun ekki hjólreiðarmanninn fyrr en hann fer að hægja á sér,“ segir Svanur og útskýrir að því sé erfitt að koma í veg fyrir að hjólreiðarmaðurinn klári ferð sína um göngin. Vaktstöðin þurfi að treysta á kerfið grípi inn í og láti vita hvar hjólreiðarmaðurinn er staðsettur í göngunum.
„Það gerist yfirleitt þegar hann er kominn neðst í göngin.“
Svanur útskýrir að þessa dagana sé unnið að því að þróa gervigreindina áfram með því að sýna henni fjölda dæma um hjólreiðarmenn í göngum. Það sé gert í þeirri von að gervigreindin verði færari í að þekkja betur hjólreiðarmenn í göngunum, þannig að hægt sé að bregðast fyrr við.
„Þegar við sjáum hjólreiðarmenn þá lokum við göngunum um leið, þar sem það er mjög hættulegt að vera á hjóli í göngunum, og lögreglan er upplýst. Þannig að það kemur yfirleitt lögreglubíll frá Akranesi sem fer beint ofan í göngin og fylgir hjólreiðarmanninum upp,“ útskýrir Svanur.
„Það er gert til að tryggja öryggi því við viljum ekki hafa bíl ofan í göngunum þegar hjólreiðarmaður er ofan í göngunum. Þess vegna lokum við göngunum um leið.“
Er markmiðið með því að þróa gervigreindina að koma í veg fyrir að hjólreiðarmenn fari ofan í göngin?
„Við getum í raun ekki komið í veg fyrir það. Við erum með lokunarslá fyrir bíla við gangamunnana sem slíka, en við lendum reglulega í því að bílar keyri fram hjá lokunarslám og það sama á við um hjólreiðafólkið,“ segir Svanur og bætir við:
„Það eru upplýsingar um að það sé bannað að fara ofan í göngin á hjóli, en það gerist samt. Þannig að eina leiðin til að grípa hjólreiðarmanninn er hreinlega að loka og senda bíl á eftir honum, sem er þá lögreglan. Við höfum enga leið, á leiðinni ofan í göngin, til að loka hluta af göngunum eða stoppa hann af. Hann í rauninni húrrar ofan í göngin og hraðinn er það mikill á niðurleiðinni að þeir eru gripnir þegar þeir eru byrjaðir að hjóla aftur upp hinu megin.“
Aðspurður kveðst Svanur ekki hafa nákvæmar upplýsingar um það hversu oft hjólreiðarmenn geri sér ferð um göngin. Hann segir það þó fremur sjaldgæft og eðli málsins samkvæmt algengara að sumri til heldur en að vori og hausti.
Þá segir hann umrædd atvik á föstudaginn var sýna mikilvægi sólahringsvöktunar i göngunum. Það geri Vegagerðinni kleift að bregðast við með skjótum hætti þegar upp koma atvik sem þessi.
„Hvort sem það er slys í göngum eða þá gangandi eða hjólandi vegfarandi sem fer inn í göngin sem hann ætti í raun ekki að gera.“