Eldri maður hefur verið sakfelldur fyrir að áreita konu kynferðislega í heitum potti í sundlaug á Vestfjörðum. Mun hann hafa strokið mjöðm, rass og brjóstsvæði hennar utan klæða.
Þetta kemur fram í dómi sem féll þann 10. júní 2024 í Héraðsdómi Vestfjarða, en hann var ákærður árið 2022. Maðurinn neitaði þó sök.
Er manninum gert að greiða brotaþola 300 þúsund krónur með vöxtum auk þess sem hann greiði um 2,4 milljónir króna í sakarkostnað. Refsingu hans hans var þó frestað og mun að öllu óbreyttu falla niður eftir tvö ár.
Atvikið átti sér stað árið 2022. Konan var starfsmaður sundlaugarinnar og maðurinn var fastagestur. Konan var þó ekki á vakt þennan dag.
Hún sat í heita pottinum ásamt tveimur öðrum sem urðu vitni að því þegar maðurinn kom í pottinn.
Í framburði beggja vitnanna kemur fram að þær hafi talið ákærða sýna brotaþola óvenjulega mikla athygli sem þær töldu báðar að væri af kynferðislegum toga.
Samkvæmt vitnisburði brotaþola áreitti maðurinn hana kynferðislega „með því að strjúka bert hold við rass hennar og að strjúka mjöðm, rass og brjóstasvæði hennar utan klæða,“ segir í dómnum.
Maðurinn hafnaði því þó alfarið að nokkuð óeðlilegt hafi gerst í pottinum milli hans og brotaþola, en hefur ekki lýst atburðum umfram það að segja að þetta hafi verið „venjuleg pottferð“.
Sem fyrr segir var maðurinn sakfelldur fyrir brot það sem honum er gefið að sök í ákæru, þ.e. kynferðislega áreitni í sundlaug, og dæmdur til greiðslu miskabóta.
En með vísan til þess að ákærði er aldraður maður með hreinan sakarferil og að meðferð málsins hafi verið tekið langan tíma var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið til tveggja ára.
Skal ákvörðunin falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.