„Langtímahugsunin á ekkert að vera dýrari“

Boðað hefur verið til átaks í neytendamarkaðssetningu fyrir ferðamenn.
Boðað hefur verið til átaks í neytendamarkaðssetningu fyrir ferðamenn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að kalla eftir meiri langtímahugsun og hugarfarsbreytingu,“ segir Anna Kristín Kristjánsdóttir, formaður SÍA, um það átak sem boðað hefur verið í neytendamarkaðssetningu fyrir ferðamenn.

Að sögn Önnu er mikilvægt að auglýsendur reiði sig ekki á kröftug markaðsátök heldur haldi stöðugt á spöðunum, ekki síst þegar kreppir að.

„Að setja pening í markaðsmál er fjárfesting en ekki bara kostnaður sem þú skrúfar alltaf fyrir,“ segir hún og útskýrir að það borgi sig ekki að spara markaðskostnað á tímum samdráttar og hefja svo kostnaðarsöm markaðsátök þegar sýnileiki á markaði er orðinn enginn.

„Langtímahugsunin á ekkert að vera dýrari þegar upp er staðið,“ segir hún.

Vilja halda þekkingunni innanlands

„Við þurfum að bretta upp ermarnar og gera þetta svolítið öðruvísi,“ segir Anna og bætir við að loforð menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra um að veita fjármagn til neytendamarkaðssetningar til ferðmanna gefi tækifæri til að gera betur.

Að hennar sögn er þá mikilvægt að íslenskt hugvit og þekking fái að koma að borðinu. Lýsir hún því að tímafrekt og dýrt útboðsferli verkefnis af þessu tagi útiloki möguleika minni íslenskra auglýsingastofa til að taka þátt í átakinu.

Anna Kristín Kristjánsdóttir tók við sem formaður SÍA árið 2022.
Anna Kristín Kristjánsdóttir tók við sem formaður SÍA árið 2022. Ljósmynd/Aðsend

„Það kannski skiptir máli að sýna fram á fagmennsku og þekkingu en aðalmálið er að taka höndum saman og fara í þessa vegferð án þess að drukkna í formsatriðunum,“ segir hún og bætir við: “Við þurfum líka að tryggja að við séum að verja störf í markaðsmálum og halda þekkingunni innanlands.“

Stærra en bara íslensk ferðaþjónusta

„Öll svona vinna sem snýr að íslenskri ferðaþjónustu, þetta er svo miklu víðara og stærra heldur en bara íslensk ferðaþjónusta, þetta hefur áhrif á allan efnahaginn,“ segir hún og bætir síðar við að hún vonist til að íslenskar auglýsingastofur fái tækifæri til að sanna sig þegar átakið fer almennilega af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert