Nágrannar heyrðu oft hávaða frá íbúðinni

Frá Bátavogi í Reykjavík þar sem parið bjó.
Frá Bátavogi í Reykjavík þar sem parið bjó. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nágrannar Dagbjartar Guðrúnar Rúnarsdóttur og mannsins sem hún er ákærð fyrir að hafa svipt lífi heyrðu oft hávaða frá íbúð parsins.

Tvær konur báru vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis í dag, þær bjuggu í íbúðunum fyrir neðan og ofan parið í Bátavogi í Reykjavík.

Dagbjört er ákærð fyrir að hafa beitt manninn marþættu ofbeldi í aðdraganda þess að hann lést laugardagskvöldið 23. september.

Lét leigufélagið vita

Önnur konan þekkti parið einungis í sjón en hin þekkti þau ekkert.

Þær lýstu hávaðanum sem barst frá íbúðinni sem rifrildi, öskur, væli, sársaukastunur frá karlmanni, bank og hljóð líkt og það væri verið að færa húsgögn til.

Sú sem þekkti parið í sjón sagðist vita að maðurinn ætti erfitt með gang svo hún gerði ráð fyrir að eitthvað af hljóðunum heyrðust er hann var að detta.

Önnur konan sagði fyrir dómi að hún hafði sent tölvupóst á leigufélagið sem leigði út íbúðirnar vegna hávaðans sem barst frá íbúðinni, auk þess að láta nágranna vita á hverfishóp.

Þær sögðu báðar að hávaðinn frá íbúðinni hefði verið orðinn það hversdagslegur að þær pældu ekki mikið í honum.

Þær mundu því ekki eftir sérstökum hljóðum sem bárust úr íbúðinni kvöldið 23. september.

Önnur konan sagðist hafa orðið mjög hissa þegar hún fékk upplýsingar frá lögreglu daginn eftir að maðurinn væri látinn. Hún hafði ekki heyrt neinn sérstakan umgang á stigaganginum, en viðbragðsaðilar lýstu því í gær fyrir dómi að fjöldi manns hefðu verið kallaðir á vettvang um kvöldið.

Aðalmeðferð í Bátavogsmálinu lýkur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert