Nýr Tækniskóli rís við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Stjórnvöld, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn undirrituðu skuldbindandi samkomulag þess efnis í dag. Næstu skref eru undirbúningur hönnunar og framkvæmdar með áætluð verklok haustið 2029.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.
Fram kemur, að Tækniskólinn sé einn af burðarásum iðn-, starfs- og tæknináms á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæði hans sé komið til ára sinna en núna fari starfsemi skólans fram í átta byggingum á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
„Bygging nýs Tækniskóla markar umbyltingu í aðstöðu til iðn-, starfs- og tæknináms á höfuðborgarsvæðinu og er liður í aðgerðum stjórnvalda til að auka veg þess á Íslandi. Markmiðið er að efla námið og aðstöðu, koma allri starfseminni fyrir á einum stað, bregðast við aukinni eftirspurn eftir náminu og mæta þörfum atvinnulífsins.“
Þá kemur fram, að fyrirhuguð sé 30.000 fermetra bygging sem rúmi um 3.000 nemendur á gróskumiklu hafnarsvæði í námunda við fjölbreytta atvinnustarfsemi.
Framkvæmdin verður í tveimur áföngum, í fyrri áfanga er byggð um 24.000 fermetra bygging og í seinni áfanga um 6.000 fermetra viðbót. Þá er gert ráð fyrir frekari stækkunarmöguleikum á lóðinni í framtíðinni, að því er ráðuneytið greinir frá.
„Áætlaður heildarkostnaður er 27 ma.kr. (á verðlagi í janúar 2023 samkvæmt áætlun verkefnisstjórnar). Bygging og búnaður verður í eigu ríkisins (80%), Hafnarfjarðarbæjar (16%) og hlutahafa Tækniskólans (4%) við lok uppgreiðslu lána,“ segir enn fremur.