Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á því hvort að flutningaskipið Longdawn hafi rekist á strandveiðibátinn Höddu er lokið. Lögreglan getur þó ekki gefið upp hver niðurstaða rannsóknarinnar er.
Málið hefur verið sent til héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um framhaldið.
Þetta segir Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Hún segir lögregluna ekki geta upplýst um niðurstöðu rannsóknarinnar.
Skipstjóri og stýrimaður flutningaskipsins hafa frá því að rannsókn á málinu hófst í maí sætt farbanni og eru áfram í því til 11. júlí.
Strandveiðibáturinn Hadda sökk norðvestur af Garðskaga 16. maí og voru mennirnir handteknir vegna gruns um að hafa yfirgefið mann í sjávarháska.
Voru þeir um borð í flutningaskipinu Longdawn þegar slysið átti sér stað en rannsóknir á siglingagögnum þóttu gefa til kynna að skipið hefði rekist á bátinn og hvolft honum.