„Seðlabankinn verður að taka þátt í þessu með okkur“

Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusamands Íslands.
Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusamands Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er svipað og febrúarspáin var hjá okkur en það sem kemur mér verulega á óvart snýr að ferðaþjónustunni sem virðist enn vera að gefa í varðandi verðlagninguna. Annað er svona eftir bókinni.“

Þetta segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, við mbl.is þegar hann var inntur eftir viðbrögðum um nýjustu verðbólgumælingu. Hann segir það ánægjulegt að verðbólgan sé komin undir sex prósent.

Verðbólgan í júní mælist 5,8% og fer í fyrsta sinn undir sex prósent síðan í janúar 2022. Í tilkynningu frá Hagstofu Íslands kemur fram að flugfargjöld til útlanda hafi hækkað um 8%, verð á hótelum og veitingastöðum um 2,1% en stóran hluta af þeirri hækkun megi reka til hækkunar á gistingu um 17%.

„Það vill til að ferðaþjónustan vigtar ekki mjög mikið inn í vísitölunni en engu að síður þá er þessi hækkun alveg þveröfug við það sem málflutningur talsmanna ferðaþjónustunnar hefur gengið út á,“ segir Finnbjörn.

Jafna framboð og eftirspurn á húsnæðismarkaði

Finnbjörn skorar á sveitarfélögin að auka lóðaframboð og hann fagnar átaki Reykjavíkurborgar sem kynnt var í gær en stefnt er að byggingu 500 íbúða í Grafarvogi á næstu árum.

„Stóra málið er að við þurfum að jafna framboð og eftirspurn á húsnæðismarkaðnum og það er meira langtímaverkefni heldur en átaksverkefni. Hluti af því að koma íbúðamarkaðnum af stað er að Seðlabankinn lækki vextina og líka fyrir heimilin sem eru að sligast undan þessu háa vaxtastigi,“ segir Finnbjörn.

Hann segir að Seðlabankinn gæti gert mikið með því að lækka vexti.

„Ég hef verið með það ákall á Seðlabankann frá því við skrifuðum undir kjarasamningana að hann verði að vera með okkur í liði. Það er ekki hægt að nota einhver fiðrilda áhrif um að hann sjái einhver teikn á lofti í Brasilíu sem geti hugsanlega haft áhrif á Íslandi. Seðlabankinn verður að taka þátt í þessu með okkur,“ segir forseti Alþýðusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert