„Þarf að koma með hraustlega lækkun“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinarsambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinarsambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, fagnar því að verðbólgan sé á niðurleið og segir boltann nú vera hjá Seðlabankanum sem þurfi að lækka vextina í landinu.

Verðbólgan fer úr 6,2% niður í 5,8% og í fyrsta sinn síðan í janúarmánuði 2022 er verðbólgan undir 6%.

„Það er ánægjulegt að sjá að verðbólgan er byrjuð að síga niður aftur og loksins erum við komin undir sex prósentin. Markmið kjarasamningana þar sem íslenskt launafólk og verkalýðshreyfing lagði mikið á sig að móta þá leið sem byggðist á því að ganga frá langtímakjarasamningum með hóflegum launahækkunum þar sem markmiðin voru skýr. Sjá verðbólgu lækka og síðan ekki síst að sjá vexti lækka,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

Hann segir stóru tölurnar fyrir íslensk heimili, launafólk og fyrirtæki vera tengdar vöxtunum. Þeim þurfi að ná niður.

Vilhjálmur segir að það hafi verið eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar að húsaleigan detti úr úr vísitölumælingunum eða svokölluð hækkun á fasteignarverði

„Það er ný mæling inn í vísitölunni. Nú er hætt með svokallaða reiknaða húsaleigu og komin er í staðinn greidd húsalega,“ segir Vilhjálmur.

Fullt tilefni til að lækka vextina

Hann bendir á að búið sé að ganga frá kjarasamningum á næstum öllum vinnumarkaði og félögin séu mörg hver búin að semja við ríkisvaldið.

„Núna er enn og aftur boltinn hjá Seðlabankanum og ég held að það sé mjög mikilvægt að Seðlabankinn komi með hraustlega lækkun 21. ágúst þegar næsti ákvörðunardagur bankans verður. Ég tel að það væri skynsamlegt og þjóðráð að Seðlabankinn myndi jafnvel boða til auka stýrivaxtar ákvörðunardags og lækka vextina. Það er fullt tilefni til þess.“

Vilhjálmur segir að það sé mikið ófremdarástand á byggingarmarkaði sökum hás fjármagnskostnaðar. Hann segir að hagvöxtur hafi dregist verulega saman og hafi verið neikvæður á fyrstu mánuðum ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert