Umfangsmikil fjárfesting en góð í öllu samhengi

Bjarni Benediktsson undirritar samkomulag vegna byggingu nýs húsnæðis Tækniskólans, í …
Bjarni Benediktsson undirritar samkomulag vegna byggingu nýs húsnæðis Tækniskólans, í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að bygging á nýju húsnæði utan um alla starfsemi Tækniskólans, sem nú er í átta byggingum, sé fjárfesting í framtíð landsins. Hann telur að mikil eftirspurn verði eftir eldra húsnæði skólans.

Hann segir mjög gleðilega stund hafa verið í Hafnarfirði í dag þegar undirritað var samkomulag um byggingu á 30.000 fermetra byggingunni sem mun rísa Flensborgarhöfn.

Frá undirrituninni fyrr í dag. Frá vinstri: Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari …
Frá undirrituninni fyrr í dag. Frá vinstri: Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Egill Jónsson, formaður stjórnar Tækniskólans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlað er að nýtt húsnæði muni rúma um 3.000 nemendur og að framkvæmd hennar kosti um 27 milljarða króna.

„Það tók tíma fyrir skólann að velja stað, það hefur gengið vel í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Síðan þarf auðvitað líka að binda um alla enda sem að snúa að fjármögnuninni og samningum skólans við ríkið og atvinnulífið. Þannig að við erum komin að mjög ánægjulegri vörðu á þessari leið,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðmundur Árni Stefánsson, …
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðráðanlegur kostnaður

Bjarni segir að kostnaður við bygginguna sé vel viðráðanlegur fyrir íslensk stjórnvöld.

„Við lítum á þetta sem fjárfestingu. Við höfum þörf fyrir starfsnám og iðnnám í landinu umfram það sem við höfum geta boðið upp á til þessa. Það hefur orðið jákvæð breyting. Það er stóraukin eftirspurn þannig að við erum hér að fjárfesta í framtíð Íslands,“ segir Bjarni.

Hann segir að jafnframt sé þörf á skólastarfsemi sem þessari til að mæta kröfum framtíðarinnar um þekkingu.

„Þannig að ég lít þannig á að fjárfestingin sem slík sé umfangsmikil að þá sé þetta góð fjárfesting í öllu samhengi.“

Margt var um manninn þegar nýtt samkomulag um byggingu nýs …
Margt var um manninn þegar nýtt samkomulag um byggingu nýs húsnæðis Tækniskólans var undirritað í blíðunni í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verði mikil eftirspurn eftir eldra húsnæði

Hvað ætlar ríkið að gera við eldri byggingar skólans eftir að hann flytur í nýja húsnæðið?

„Það er auðvitað ýmislegt sem kemur til greina í því. Það á eftir að láta á það reyna. Þetta er fjölbreytt húsnæði af ýmsum toga en ríkið á það ekki allt.

Þetta er húsnæði sem almennt er miðlægt í Reykjavík, þannig að það verður mikil eftirspurn eftir því,“ segir Bjarni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka