Ásmundur Einar Daðason,
„Þetta er ótrúlega jákvætt skref, við höfum lagt mikla áherslu á þetta, og er líka liður í heildaruppbyggingu verknámsaðstöðu á landinu. Þetta er ekki eina framkvæmdin sem við erum að fara með í þessu efni,“ segir Ásmundur Einar í samtali við mbl.is.
Nefnir hann sem dæmi að framkvæmdir séu að fara af stað við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, en þær muni líklega hefjast öðru hvoru megin við næstu áramót.
„Síðan eru fjórir aðrir verknámsskólar þar sem er búið að undirrita og tryggja fjármögnun, það er að segja Menntaskólinn á Ísafirði, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Verkmenntaskólinn á Akureyrir og Fjölbrautaskóli Suðurnesja,“ segir Ásmundur Einar.
Sé allt gert til þess að mæta þessari miklu eftirspurn sem er í verk- og starfsnám og til þess að reyna að ná Norðurlöndunum.
„Staðreyndin er sú að það eru miklu fleiri nemendur á Norðurlöndunum sem fara í starfs- og verknám heldur en hér á landi,“ segir Ásmundur Einar.
„Þetta er allt liður í þessari áætlun stjórnvalda og ótrúlega gaman að fylgja henni eftir og sjá þennan gríðarlega mikilvæga áfanga fara hér á stað,“
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir Hafnfirðinga hlakka til þess að fá nýjan Tækniskóla í bæinn.
„Þetta er virkilega stór stund. Þetta er búið að vera í undirbúningi í nokkur ár og það er alveg stórkostlegt að þetta sé að raungerast,“ segir Rósa við mbl.is.
„Það er mikið tilhlökkunarefni fyrir okkur Hafnfirðinga að þessi starfsemi og þessi frábæri og eftirsótti skóli rísi hérna á fallegasta stað í bænum.“
Nú þurfi hins vegar að bretta upp ermar.
„Það verður örugglega gefið allt í þetta fyrst að þetta er komið á þennan stað. Þá er ekki eftir neinu að bíða en að hefjast handa af fullum krafti.“