Auglýsa 200 íbúða hverfi á Veðurstofureit

Loftmynd af Veðurstofureitnum.
Loftmynd af Veðurstofureitnum. Mynd/Reykjvíkurborg

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa deiliskipulag fyrir nýtt hverfi á Veðurstofureitnum, en þar er gert ráð fyrir ríflega 200 íbúðum. Um ræðir fyrsta stafræna deiliskipulagið á landinu sem er tilraunaverkefni í samvinnu við Skipulagsstofnun.

Gert er ráð fyrir að heildarbyggingarmagn verði um 25.700 fermetrar á sjö lóðum, en til viðbótar eru tvö þróunarsvæði á reitnum. Gert er ráð fyrir að byggingarnar verði á bilinu tvær til fimm hæðir, en til samanburðar er hæð húsa til suðurs og norðurs við Veðurstofuhæðina 2-3 hæðir og til austurs 4-5 hæðir.

Veðurstofan og Veitur verða áfram með starfsemi á reitnum.

Athugasemdir vegna deiliskipulagsins

Ekki er gert ráð fyrir almennum akstri á svæðinu heldur verður notast við bílastæðahús svo að, samkvæmt tillögu, yfirborð verði grænna og öruggara.

Í fundargerð frá fundi borgarráðs sem fram fór í gær kemur fram að borgarfulltrúar Sjálfstæðislfokksins og Flokks fólksins hafi komið með athugasemdir varðandi tillöguna. Til að mynda áhyggjur vegna þeirra sem eiga bágt með gang og að vöntun verði á „venjulegu húsnæði“, en samkvæmt tillögunni verða byggingar á svæðinu hannaðar með náttúrulegum lífrænum efnum og byggingarúrgangi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu skipulagið með þeim hætti að efnaminni íbúar verði staðsettir í jaðri hverfisins og megi því „kjaga með innkaupapoka í norðangarra um langa leið“. Þá vonast þeir til að tillit verði tekið til fólks, íslenskra aðstæðna og veðráttu.

Borgarfulltrúar Flokks fólksins gangrýndu að gert væri ráð fyrir að íbúar aðhyllist bíllausan lífstíl og aðgengi inn og út úr hverfinu verði erfitt.

Í deiliskipulagi fyrir Veðurstofureit verður gert ráð fyrir sjö metra …
Í deiliskipulagi fyrir Veðurstofureit verður gert ráð fyrir sjö metra breiðri tengingu, undir Bústaðaveg sem tengir saman norður-suður milli Stigahlíðar og Beykihlíðar/Birkihlíðar.

Unnið hefur verið að skipulaginu í nokkurn tíma, en það er byggt á vinnu sem samanstóð af hugmyndaleit að væntanlegum lóðarhöfum og svo samkeppni um deiliskipulag. Komu lóðarhafarnir Dumli ehf. og Grænt húsnæði ehf. að skipulaginu ásamt Bjargi, en ákveðið var að vinna skipulagið áfram með tillögu dönsk-íslensku hönnunarstofunnar Lendager.

Á næstu dögum verður hægt að nálgast gögn inn á skipulagsgátt hjá Skipulagsstofnun. Þar verður jafnframt hægt að koma með athugasemdir, ábendingar og umsagnir.

Áætlað verður að halda íbúafund um mánaðarmótin ágúst, september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert