Börnin fremja fleiri og grófari brot

Í nýrri skýrlu ríkislögreglustjóra kom fram að meiri­hátt­ar eða stór­felld­ar …
Í nýrri skýrlu ríkislögreglustjóra kom fram að meiri­hátt­ar eða stór­felld­ar lík­ams­árás­ir meðal barna hafa aldrei verið fleiri. mbl.is/Hari

Verkefnastjóri forvarna hjá Reykjavíkurborg er jákvæður gagnvart nýjum tillögum til að bregðast við auknu ofbeldi meðal barna. Hann hefur sjálfur orðið var við aukið ofbeldi og telur starf félagsmiðstöðva mikilvægan lið í forvörnum.

Í vikunni kom út ný skýrsla ríkislögreglustjóra þar sem fram kom að meiri­hátt­ar eða stór­felld­ar lík­ams­árás­ir meðal barna hafa aldrei verið fleiri.

Í kjölfarið kynntu Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, og Guðrún Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra, 14 aðgerðir stjórn­valda til að bregðast við þróuninni.

Meðal þeirra tillagna sem settar voru fram er að efla ung­menn­astarf í Breiðholti sem og starf Flot­ans – flakk­andi fé­lags­miðstöðvar.

Fjölþættari vandamál

Kári Sigurðsson, verkefnastjóri forvarna hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, sem hefur starfað með unglingum í Breiðholti í 17 ár fer fyrir Flotanum. Hann segir tillögurnar rökrétt skref og finnst mjög jákvætt að ráðuneytin tvö hafa tekið höndum saman til að leysa vandann.

Kári hefur sjálfur tekið eftir auknu og harkalegra ofbeldi barna í starfi sínu í félagsmiðstöðvum og Flotanum:

„Við höfum klárlega fundið fyrir aukningunni en þetta eru ekki endilega fleiri einstaklingar heldur eru þetta einstaklingar sem eru að fremja fleiri og grófari brot,“ segir Kári og bætir við:

„Við höfum líka fundið fyrir því að þetta eru alvarlegri líkamsárásir sem við erum að glíma við, hóparnir eru þyngri og vandamálin fjölþættari en þau voru.“

Kári Sigurðsson, verkefnastjóri forvarna hjá skóla og frístundasviði.
Kári Sigurðsson, verkefnastjóri forvarna hjá skóla og frístundasviði. Ljósmynd/Aðsend

Hafa haft aukingu ofbeldismála á tilfinningunni

Þá talar Kári um að starfsfólk félagsmiðstöðva hafi haft á tilfinningunni að alvarlegt ofbeldi meðal barna væri að aukast án þess að hafa um það töluleg gögn. Þannig sé að vissu leyti gott að fá staðfestingu á því með skýrslu ríkislögreglustjóra.

„Stundum þegar við erum að tala um einhver ákveðin vandamál í samfélaginu, vantar samhljóm innan mismunandi hópa en hann er klárlega til staðar núna hjá fólki sem er að vinna í þágu barna og unglinga. Það eru allir að  finna fyrir sömu vandamálum og stíga sömu skrefin,“ segir Kári.

Hafa betri yfirsýn

Spurður um starf Flotans - flakkandi félagsmiðstöðvar, sem sérstaklega er talað um í tillögum ráðherranna, segir Kári:

„Flotinn er í grunninn vettvangsstarf félagsmiðstöðva í Reykjavík. Yfir veturinn erum við með fastar vaktir þar sem teymi starfsfólks úr félagsmiðstöðvum vinnur þvert á borgina og fara á þá staði þar sem við teljum mögulegt að óæskileg hópsöfnun barna sé í gangi.“

„Það er í rauninni bæði verið að fylgjast með að hópunum og einstaklingunum líði vel og í leiðinni er þetta ákveðin forvörn til að reyna að fá einstaklinga aftur yfir á sitt heimasvæði, í uppbyggilegar tómstundir,“ segir Kári og bætir við að Flotinn hafi líka yfirsýn yfir krakka sem eru ekki bundin við sitt heimasvæði og eru að blandast mismunandi hópum.

„Fyrir nokkrum árum voru þessir hópar alveg til en þá var yfirsýnin minni en hún er í dag. Þannig við getum núna brugðist fyrr við áhyggjum af ákveðnum einstaklingum,“ segir Kári.

Á sumrin er Flotinn svo starfandi í fullu starfi til að hafa yfirsýn með og hlúa að hópum sem áhyggjur eru yfir á meðan skólar og félagsmiðstöðvar eru lokaðar.

Flotinn - flakkandi félagsmiðstöð hlaut hvetningarverðlaun skóla og frístundasviðs 2021.
Flotinn - flakkandi félagsmiðstöð hlaut hvetningarverðlaun skóla og frístundasviðs 2021. Ljósmynd/Aðsend

Ungmennahús liður í að halda ungmennum í námi

Annar liður í tillögunum er að efla ungmennastarf í Breiðholti en Kári segir að það feli í sér starfsemi svokallaðs ungmennahúss sem þjónusti börn á menntaskólaaldri sem gjarnan eiga ekki stað innan kerfisins. 

Farið var af stað með sérstakar opnanir í félagsmiðstöð í Breiðholti fyrir börn á aldrinum 16-18 ára en verkefnið er samstarfsverkefni Fjölbrautarskólans í Breiðholti, Barna og menntamálaráðuneytisins og frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs. 

„Ástæðan fyrir því að farið var af stað í að mæta krökkum á framhaldsskólaaldri var að það voru þung mál að koma upp í FB og þörfin fyrir að unga fólkið væri að gera eitthvað uppbyggilegt og hefði stað til að hittast á í vernduðu umhverfi var mikil,“ segir Kári.

Hann segir að fljótt hafi komið í ljós að eftirspurnin eftir starfseminni var til staðar en um sé að ræða skref í að þjónusta hóp sem hefur verið kerfinu ósýnilegur.

„Þetta er líka svo að starfsfólk geti sýnt umhyggju og hvatt krakkana til þess að halda áfram í framhaldsskólanáminu. Við höfum áhyggjur af brottfalli úr framhaldsskóla og það vantar eitthvað aðhald Þetta er gott skref í þá áttina,“ segir Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert