Breyta gjaldskrá til að sækja tekjur af ferðafólki

Reykjavíkurborg greiðir niður sundferðir allra gesta og greiðir að meðaltali …
Reykjavíkurborg greiðir niður sundferðir allra gesta og greiðir að meðaltali 1.200 krónur með hverjum gesti sem sækir sundlaugarnar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Reykjavíkurborg hyggst breyta gjaldskrá sundlauga sinna með það að markmiði að sækja tekjur af eldri ferðamönnum sem hingað til hafa notið gjaldfrjáls aðgengis að sundlaugum borgarinnar.

Gjaldtakan mun ná til allra sem eru eldri en 67 ára og munu því innlendir eldri borgarar einnig þurfa að greiða fyrir stakar ferðir. Hins vegar verður tekið upp árskort fyrir eldri borgara á verði sem jafngildir þremur stökum ferðum fullorðinna í sund. Stefnt er að því að auka stuðning við heilsueflingu eldra fólks í samstarfi við íþróttafélögin í borginni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg

Árskort nemur gjaldi þriggja sundferða

Um er að ræða tillögu menningar,- íþrótta- og tómstundaráðs, sem samþykkt var í morgun og tekin verður fyrir í borgarráði. Felur tillagan í sér að sundgestir sem náð hafa 67 ára aldri greiða stakt gjald fullorðinna og gjaldflokkurinn „eldri borgarar“ verður tekinn úr gjaldskránni.

Verð á árskorti fyrir eldri borgara mun nema gjaldi þriggja sundferða, eða fjögur þúsund krónum samkvæmt núverandi gjaldskrá og mun breytingin taka gildi frá fyrsta ágúst næstkomandi.

Ný árskort fyrir eldri borgara taka gildi fyrsta október næstkomandi. Fram að þeim tíma geta eldri borgarar framvísað sundkortum sem nú eru í gildi. Öryrkjar fá áfram frían aðgang að sundlaugum borgarinnar gegn framvísun öryrkjakorts, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Um 14 þúsund eldri ferðamenn í sund árlega

Þá segir að sund sé mikilvæg heilsubót og mikill fjöldi fólks sæki átta sundlaugar Reykjavíkur. Margir eldri borgara séu fastagestir sem hafi fengið frían aðgang að laugum borgarinnar lengi.

Mikilvægt sé að tryggja þessum hópi áfram gott aðgengi að laugunum og er markmið gjaldskrárbreytingar að tryggja að eldri ferðamenn greiði fyrir aðgang að þessari mikilvægu þjónustu.

„Um 14 þúsund ferðamenn sem náð hafa 67 ára aldri sækja sundlaugar Reykjavíkur á hverju ári og verður borgin því af tekjum sem geta numið um 18,5 milljónum króna árlega. Sveitarfélögum er óheimilt að mismuna gestum eftir búsetu og er því ekki hægt að veita einungis eldri Reykvíkingum frían aðgang að sundlaugum borgarinnar. Heimilt er hins vegar að bjóða upp á gjaldskrá með mismunandi gjaldflokka og veita afsláttarkjör, til dæmis með útgáfu árskorta,“ segir í tilkynningunni. 

Auka stuðning við heilsueflingu eldra fólks

Reykjavíkurborg greiðir niður sundferðir allra gesta og greiðir að meðaltali 1.200 krónur með hverjum gesti sem sækir sundlaugarnar, eða um 50% af stöku gjaldi. segir í tilkynningunni.

Því næst er útskýrt að með tillögunni sé áætlað að tekjur Reykjavíkurborgar geti aukist um 30 milljónir króna á ári en samhliða tillögunni vinnur menningar,- íþrótta- og tómstundaráð að því við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár að móta tillögu um að hluta þessara tekna verði varið til að auka stuðning við heilsueflingu eldra fólks í samstarfi við íþróttafélög borgarinnar.

Þess má geta að ráðið hefur, með samþykkt borgarráðs, skipað sérstakan stýrihóp til að fara yfir gjaldskrár stofnana menningar- og íþróttasviðs, með það að markmiði að einfalda þær og rýna möguleika á að auka tekjur borgarinnar. Stefnir hópurinn að því að skila af sér tillögum í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert