Ekki einhugur um geðslag Dagbjartar

Frá Bátavogi þar sem Dagbjört og maðurinn bjuggu.
Frá Bátavogi þar sem Dagbjört og maðurinn bjuggu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Greinilegt er að tveimur geðlæknum og fjölskyldu Dagbjartar Guðrúnar Rúnarsdóttur ber ekki saman um geðslag hennar. Geðlæknir sem greindi hana með ADHD fyrir nokkrum árum mat það svo að hún glímdi við mikla fötlun og hefði helst þurft á búsetuúrræði með stuðningi að halda.

Í gær báru móðir Dagbjartar og sambýlismaður hennar vitni fyrir dómi og lýstu henni sem mjög skýrri, klárri og ákveðinni konu.

Í dag er þriðji og síðasti dagur aðalmeðferðar í Bátavogsmálinu. Dagurinn hófst á skýrslum Tómasar Zoëga og Haraldar Erlendssonar geðlækna. Tómas gerði geðmat á Dagbjörtu nokkrum vikum eftir að hún var handtekin í september. Dagbjört var sjúklingur hjá Haraldi fyrir nokkrum árum og greindi hann hana með ADHD.

Óvinnufær

Dagbjört ólst upp á Suðurlandi og sagði Tómas fyrir dómi að grunnskólaganga hennar hefði gengið vel. Hún hefði hins vegar átt erfitt í framhaldsskóla og að það hefði líklega orsakast útaf ógreindu ADHD.

Upplýsingar Haraldar gáfu hins vegar til kynna að hún hefði glímt við skapsveiflur. Þá lýsti hún því sjálf fyrir honum að hún ætti það til að pirrast og verða ofbeldisfull.

Hann sagði fyrir dómi að hún hefði verið óvinnufær í fjölda ára og gat varla séð um sjálfa sig á einum tímapunkti.

Erfitt að meta hana

Tómas mat það svo að greind Dagbjartar hefði verið í meðallagi, en niðurstöður Haraldar voru allt aðrar.

Hann hitti Dagbjörtu sjö sinnum árið 2021 og mat það svo að hún væri sennilega verulega greindarskert.  

Haraldur lýsti því fyrir dómi að það hefði verið mjög erfitt að meta Dagbjörtu. Hún talaði í belg og biðu, ætti mjög erfitt með að hlusta og þá vissi hann ekki hversu mikið væri að marka það sem hún segði. Haraldur lýsti því þannig að Dagbjört virtist vera bara í sínum eigin heimi.

Tómas sagði hana hins vegar hafa verið viðræðugóða, svarað skýrt og skilmerkilega er hann mat hana síðasta vetur. Hann sagði að hún glímdi ekki við alvarlegan geðsjúkdómi, en hann mat hana sakhæfa.

Áfallasaga

Báðir geðlæknir sögðu að Dagbjört ætti áfallasögu að baki. Hún hefði verið í ofbeldisfullum ástarsamböndum og misst íbúð sem hún átti, sem var henni mikið áfall.

Haraldur sagði að Dagbjört hefði glímt við umtalsverða færniskerðingu á öllum sviðum.

Hann sagði að hún gæti verið á einhverfurófi. Tómas samsinnti því í sinni skýrslutöku en sagði að þá væri um væga einhverfu að ræða.

Tómas sagði að sínu mati glímdi Dagbjört ekki við alvarlegan geðsjúkdóm.

Átti það til að taka of háa skammta

Haraldur greindi hana með mjög mikið ADHD og setti hana á lyf við því. Hann sagði lyfin hafa skilað árangri og Dagbjört orðið rólegri. Áfram hefði þó verið erfitt að ræða við hana.

Tómas sagði að hún hefði ekki sýnt áberandi merki ADHD í viðtölum þeirra.

Það hefur komið fram fyrir dómi að Dagbjört átti það til að taka of háan skammt af ADHD lyfjum. Amfetamín fannst í blóði hennar.

Báðir læknarnir sögðu að ekki væri útilokað að það gæti hafa aukið árásarhvöt Dagbjartar. Ólíklegt er þó að lyfjaskammturinn hafi valdið geðrofi, en Haraldur sagði að yfirleitt tæki fólk mun stærri skammt til þess að það gæti gerst.  

Tómas sagði að hann hefði það ekki á tilfinningunni að Dagbjört hefði misnotað ADHD lyfin, eða verið sérstaklega ör þegar hann hitt hana.

Neitaði að tala um manninn

Tómas sagði að Dagbjört hefði verið í miklu uppnámi yfir dauða hunds síns sem lést nokkrum dögum áður en maðurinn dó.

Hún hágrét þegar hún talaði um hann. Þegar hún talaði um manninn sýndi hún hins vegar engar tilfinningar.

Dagbjört neitaði að tala um hvað fór þeirra á milli dagana áður en hann lést.

Tómas sagðist ekki geta skýrt viðbrögð hennar sérstaklega. Hann sagði að um óvenjuleg viðbrögð væri að ræða sem væru þó ekki einstök.

Ekki haldin ranghugmyndum

Báðir læknar sögðust ekki geta séð að Dagbjört hefði verið haldinn ranghugmyndum, eða sýnt geðrofseinkenni.

Tómas var sérstaklega spurður hvort hann sá merki þess af upptökum sem voru teknar á síma parsins dagana áður en maðurinn dó. Hann sagði ljóst Dagbjört hefði verið reið út í manninn og kennt honum um dauða hundsins, en gat ekki séð merki um ranghugmyndir.

Þarf á almennum stuðning að halda

Tómar og Haraldur voru einnig báðir spurður hvort að þeir teldu að Dagbjört þyrfti á sérhæfðum úrræðum að halda.

Tómas sagði meta að hún þyrfti ekki sérhæfða lyfjameðferð, en að hún þyrfti almennan stuðning, líkt og flestir þurfa, til að vinna úr áfallinu.

Gefur greinilega af sér mismunandi mynd

Vitnisburður fjölskyldu Dagbjartar og Tómasar læknis var borinn undir Harald. Hann sagði að þeirra mynd af henni stangaðist mjög á við þá mynd sem hann hefði haft af henni.

Haraldur átti erfitt með að meta hana í viðtölum þar sem hún var ekki áreiðanleg. Hann sagðist ekki vita hvort að kynni hans af henni hefði verið tímabundið ástand hjá henni.

Greinilegt væri að Dagbjört gæfi mjög mismunandi mynd af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert