„Ekki fyrir óvana“

Haraldur Haraldsson, formaður Hjólreiðafélags Vesturlands vann með skógræktinni til að …
Haraldur Haraldsson, formaður Hjólreiðafélags Vesturlands vann með skógræktinni til að búa til nýja hjólabraut.

Haraldur Haraldsson hafði ekki verið formaður í Hjólreiðafélgi Vesturlands lengi áður en hann fór að láta verkin tala. Aðeins þremur mánuðum eftir að vera kjörinn formaður hefur hann útbúið glænýja hjólreiðabraut í Skálpastaðarskógi í Skorradal og segir fleiri brautir á leiðinni.

Spurður af hverju hann hafi ákveðið að leggjast í verkefnið segir Haraldur:

„Þetta er til að byggja um meira samfélag í kringum hjólreiðarnar og fjallahjólreiðar. Ég var kosinn formaður í Hjólreiðafélagi Vesturlands í febrúar/mars og hafði í kjölfarið samband við skóræktarfélagið og þeir voru bara rosalega til í að prófa þetta því þeir vilja fá fleira fólk í skóginn.“

Brött og krefjandi

Spurður um eðli brautarinnar sem verður að öllum líkindum kláruð um helgina segir Haraldur: „Þetta er klassísk svokölluð downhill-braut, brött braut í gegnum skóginn.“

Haraldur hefur ekki enn komist í að mæla vegalengd brautarinnar en telur hana vera á bilinu 600 - 800 metrar. 

Þá tekur hann fram að hún sé ætluð fyrir reynda hjólreiðamenn og allir sem sæki hana séu á eigin ábyrgð: „Hún er ekki fyrir óvana, þetta er alveg svolítið bratt og getur verið krefjandi fyrir suma.“

Haraldur bendir þó á að fleiri staðir til að stunda hjólreiðar séu á svæðinu og því ættu allir að geta fundið eitthvað við hæfi:

„Við erum með útivistarsvæði hér sem við höfum verið að nýta, Einkunnir og Daníelslund, sem eru minni svæði og minna krefjandi. Svo er auðvitað hægt að hjóla í Stálpastaðaskógi á þeim vegum sem eru þar þó fólk fari ekki í þessa tilteknu braut.“

Haraldur Haraldsson, formaður Hjólreiðafélags Vesturlands.
Haraldur Haraldsson, formaður Hjólreiðafélags Vesturlands. Ljósmynd/Aðsend

Fékk ógeð af því að eiga bíl

Spurður hvernig hann sjálfur leiddist út í hjólreiðar segir Haraldur: „Ég fékk ógeð af því að eiga bíl og keypti mér reiðhjól fyrir svona 15 árum. [...] Nú er þetta er bara algjör ástríða út í gegn.“

Metnaður Haralds fyrir hjólreiðum virðist heldur betur ekki á undanhaldi en hann segir fleiri brautir í Stálpastaðaskógi á teikniborðinu. 

„Maður er alveg byrjaður að hugsa fleiri en við sjáum hvað verður. Því meira því betra,“ segir Haraldur.

Hann segist hafa fundið fyrir miklum áhuga á brautinni og að hjólreiðasenan á Vesturlandi fari stækkandi: 

„Þetta er svona að lifna við, við erum til dæmis að virkja krakkana hérna og erum nýbúin að ljúka námskeiði fyrir þau. Þannig það er mikið að gerast í þessu.“

Frekari upplýsingar um brautina má finna á Facebook-síðu Hjólreiðafélags Vesturlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert