Fölsk brunaboð of algeng

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir of algengt að brunabjöllur gefi …
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir of algengt að brunabjöllur gefi frá sér falsboð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er vitað af hverju ekki allar brunabjöllur Höfðatorgs fóru í gang þegar eldur kviknaði í húsinu fyrr í vikunni. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu segir að það sé eitthvað sem þurfi að rannsaka og gefa sér tíma í að skoða. 

Fólk þarf að hlýða brunaviðvörunarkerfinu  

„Stóri lærdómurinn er að fólk þarf að hlýða brunaviðvörunarkerfinu þegar það fer í gang, þó svo það komi fyrir að það séu falsboð, þá þarf að vinna í því að fækka þeim tilfellum, þannig fólk hætti ekki að óhlýðnast kerfinu,“ segir Jón Viðar. 

Allt of algengt er að falsboð berist frá brunaviðvörunarkerfum sem gerir það að verkum að fólk hættir að meta alvarleika þeirra.

Rannsaka þurfi samtengingu á milli brunaviðvörunarkerfa

Jón Viðar telur þetta snúast um hvernig samtengingin á milli kerfa hússins sé háttað og sé þetta eitthvað sem þurfi að skoða betur.

Eldvarnareftirlit slökkviliðsins muni því fara í að skoða brunaviðvörunarkerfið í nærliggjandi húsum og komast að því hvað gerði það að verkum að ekki allar brunabjöllur hafi hringt.

Spurður hvort eitthvað nýtt sé að frétta af rannsókn málsins segist Jón Viðar ekki hafa fengið neitt nýtt á sitt borð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert