Gat ekki fært sönnur á lélegar kýr

Maðurinn taldi ósanngjarnt að greiða fullt verð fyrir allar kýrnar.
Maðurinn taldi ósanngjarnt að greiða fullt verð fyrir allar kýrnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Manni hefur verið gert að greiða tæpar fimm milljónir króna í skuld fyrir kýr sem hann keypti á Facebook.

Þetta kemur fram í dómsniðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands sem féll í dag, en maðurinn var ákærður síðasta vor. Var þá deilt um hvort maðurinn, sem rekur kúabúið Voðmúlastaði í Austur-Landeyjum, hefði greitt réttmætt kaupverð fyrir þó nokkurn fjölda gripa.

Lélegri mjólkurkýr en ætla mætti 

Greinir aðila að málinu nokkuð á um hver endanlegur fjöldi hinna seldu gripa var eða greiða átti fyrir, en upprunalega stóð til að maðurinn myndi festa kaup á nítján gripum. Uppsett verð seljanda gripanna hafi þá verið 290.000 krónur fyrir hverja kú auk virðisaukaskatts.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms að ekki væri ágreiningur milli aðila að nítján kýr hefðu verið fluttar milli aðila en kaupandi hafi þó kveðið að tveir gripir hefðu drepist og að ein kýrin hefði verið lakari mjólkurkýr en vænta mátti.

Bara fimm gripir sem stóðust væntingar

Aðila greindi þá á um hvert kaupverð ætti að greiða fyrir kýrnar og kvígurnar en vegna dauða gripanna tveggja hafi seljandi sent manninum reikning fyrir sautján seldum gripum sem kostuðu 290.000 krónur hver. Heildarverð kúnna hafi þá verið 4.930.000 krónur auk virðisaukaskatts að fjárhæð 1.183.200 krónur, eða 6.113.200 krónur.

Fram kemur að maðurinn hafi ekki talið 290.000 sanngjarnt verð fyrir nema fimm gripanna og prúttað verð seljanda umtalsvert. Hann hafi þó ekki tilgreint að ástæður fyrir lægri verðhugmynd sinni vörðuðu ástand gripanna. Úrskurðaði héraðsdómur því að ósannað væri að athugasemdir um ástand gripanna eða um að þær mjólkuðu lítið hefðu komið fram fyrr en löngu eftir afhendingu þeirra.

Gert að greiða kröfu seljanda auk dráttarvaxta

Að mati dómsins er óumdeilt að manninum hafi borið að greiða fyrir gripina en fram kemur að hann hafi þó þegar borgað inn á kröfu seljanda rúmar tvær og hálfa milljón.

Kaupanda var því gert að greiða seljanda 4.858.792 krónur ásamt dráttarvöxtum, að frádreginni innborgun að fjárhæð 2.639.000 krónur. Mun hann þá einnig greiða seljanda 1.100.000 krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert